Miðvikudaginn 2. desember var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Það gleður okkur að segja frá því að tvær bóka Sögufélags árið 2020 hafa verið tilnefndar í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis: Í fjarska norðursins eftir Sumarliða R. Ísleifsson og Konur sem kjósa eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur.
Umsögn dómnefndar um Í fjarska norðursins:
„Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.“
Umsögn dómnefndar um Konur sem kjósa:
„Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.“