Þrjár nýjar fræðibækur og tvö bindi af tímaritinu Sögu komu út hjá Sögufélagi á árinu og verður útgáfan kynnt með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, miðvikudaginn 20. nóvember kl. 19:30-21:30.
Vaskur hópur viðmælenda mun ræða við höfunda og ritstjóra bókanna og spyrja þá spjörunum úr. Léttar veitingar og bækur seldar á tilboðsverði.
Kvöldið hefst með kynningu Kristínar Svövu Tómasdóttur á hausthefti Sögu auk þess sem tveir af greinarhöfundum munu segja frá sínu framlagi í tímaritinu. Þorsteinn Vilhjálmsson kynnir greinina „Kaupstaðarsótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“ og Vilhelmína Jónsdóttir segir frá sinni grein „„Ný gömul hús“. Um aðdráttarafl og
fortíðleika í nýjum miðbæ á Selfossi.“
Að því loknu mun Margrét Gunnarsdóttir kynna fjórða bindi Landsnefndarinnar fyrri og spjalla við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í fjórða bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá háembættismönnum landsins.
Eftir stutt hlé mun Örn Hrafnkelsson kynna Nýtt Helgakver: Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar og ræða við einn af höfundum. Ritið hefur að geyma 20 greinar um sögu og bókmenntir miðalda, samfélag og náttúru, skáld og lærdómsmenn og menntun og stjórnmál. Höfundar eru flestir fylgdarmenn Helga Skúla í fræðasamfélaginu, auk þess sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ritar ávarp til afmælisbarnsins.
Síðast en ekki síst mun Sumarliði Ísleifsson kynna Öræfahjörðina: Sögu hreindýra á Íslandi og taka höfundinn, Unni Birnu Karlsdóttur, tali. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands frá Finnmörku í Noregi árið 1771 og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Í Öræfahjörðinni er sögð saga hreindýra á Íslandi frá seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra.
Bækur ársins eru fjölbreyttar að efni og má búast við skemmtilegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.
Allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.