Oft er talað um að íslenska þjóðin hafi fyrr á tímum búið við ömurlega örbirgð um langa hríð. En er þetta ekki bara goðsögn sem varð til í þjóðfrelsisbaráttunni, eitthvað sem fólk þurfti að trúa til að sannfæra sig um að sjálfstæði væri best?
Goðsögnin virðist síðan hafa verið endurunnin í þágu nýrra tíma, nú síðast að því er virðist til notkunar í vaxandi ferðaþjónustu. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að lífskjör Íslendinga voru ekkert verri en annarra þjóða í nágrenninu, á sumum sviðum jafnvel betri ef eitthvað var. Landnámið og búsetan hafði þó í för með sér verulegt álag á gróðurþekju, skóga og jarðveg því landnemar notuðu sömu landbúnaðartækni og í heimalöndunum en gróðurinn er hér viðkvæmari en þar.
Myndin er samt mun flóknari en oftast er látið í veðri vaka og mikilvægt að hafa í huga að mismunandi álag var á landið eftir tímabilum, landshlutum og búsháttum.
Nokkrir þeirra fræðimanna sem rannsakað hafa þessa sögu munu 8. desember næstkomandi flytja erindi á málþingi um þessi mál í sal Þjóðminjasafnsins. Það eru Sögufélag og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands sem standa að málþinginu.
Tveir þeirra sem erindi halda eru með bækur á jólamarkaði, þeir Axel Kristinson með Hnignun, hvaða hnignun?, og Árni Daníel Júlíusson með Af hverju strái. Í þeim báðum eru, með ólíkri nálgun, færð rök að því að hin hefðbundna hugmynd um vesæla þjóð í vondu landi standist á engan hátt.
Frummælendur og umræðuefni eru:
14.00 Guðrún Gísladóttir, Egill Erlendsson, Sigrún Dögg Eddudóttir og Leone Tinganelli: Gróður og jarðvegur eftir landnám.
14.20 Axel Kristinsson: Vistmorðingjar: Rapa Nui og Ísland.
14.50 Helgi Þorláksson: Danir sýknir. Hvað svo?
15.10 Árni Daníel Júlíusson: Bjuggu 100.000 manns á Íslandi á 14. öld?
Eins og áður sagði verðu málþingið haldið þann 8. desember 2018 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 14.00. Fundarstjóri er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!