Vel samin rit fá viðurkenningu

desember 2018

Tveir höfundar bóka sem Sögufélag gaf út í ár, hafa fengið úthlutað úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar. Það eru þau Axel Kristinsson höfundur bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? og Kristín Svava Tómasdóttir sem skrifaði Stund klámsins. Bækurnar hafa báðir vakið eftirtekt og umtal, þær eru vel skrifaðar, læsilegar og falla því vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Steinunn Kristjánsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson fengu einnig veglega styrki fyrir bækur sínar sem Sögufélag gaf út 2017; Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir og Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Allmargir sagnfræðingar aðrir hlutu styrk úr sjóðnum.

Sjóðurinn Gjöf Jóns Sigurðssonar var stofnaður samkvæmt erfðaskrá Ingibjargar Einarsdóttur, ekkju Jóns forseta árið 1879. Tveimur árum síðar samþykkti Alþingi reglur um sjóðinn sem veitti allmörgum fræði- og vísindamönnum viðurkenningu fyrir vel samin rit. Hann styrkti útgáfu þeirra og merkra heimildarrita.

Á Þjóðhátíðarárinu 1974 ákvað Alþingi að efla sjóðinn með árlegu framlagi og er nú veitt til hans á fjárlögum jafngildi árslauna prófessors við Háskóla Íslands. Upphafleg markmið sjóðsins hafa jafnan verið höfð í huga við úthlutun sem er annað hvert ár.

Að þessu sinni sinni var úthlutað styrkjum samtals að fjárhæð 9,6 milljónum.

Stund klámsins í öðru sæti!

desember 2018

Bók Kristínar Svövu Tómasdóttur Stund klámsins hafnaði í öðru sæti í flokki fræði- og handbóka, í verðlaunavali bóksala 2018.  Stórvirkið Flóra Íslands var hlutskarpast að þessu sinni.

Verðlaun bóksala eru árviss atburður sem var kynntur í bókaþætti Egils Helgasonar Kiljunni miðvikudagskvöldið 12. desember.

Bóksalar um allt land greiða atkvæði um nýútkomnar bækur og eru birtar niðurstöðurnar fyrir þrjú efstu sætin í mismunandi flokkum.

Sögufélag óskar Kristínu Svövu og öllum aðstandendum Stundar klámsins innilega til hamingju með árangurinn.

Margmenni á málþingi

desember 2018

Húsfyllir var á þverfaglegu málþingi Sögufélags og Sagnfræðistofnunar Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar.

Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði reið á vaðið þar sem hún lýsti hvernig menn og eldfjöll gerbreyttu ásýnd Íslands á fyrstu öld byggðar í landinu. Axel Kristinsson sagnfræðingur fjallaði um goðsagnir eða mýtur um s.k. vistmorð sem hann taldi ekki endilega standast frekari skoðun.

Helgi Þorláksson fyrrverandi prófessor í sagnfræði fjallaði um hvernig viðhorf til Dana tók breytingum á seinni hluta tuttugustu aldar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kenna einum hópi öðrum fremur um fátækt á Íslandi fyrr á tímum. Að lokum leiddi sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson að því sannfærandi líkum að Íslendingar gætu hafa verið um 100 þúsund á 14. öld, með því að „nota aðrar heimildir“ en hingað til.

Óhikað má fullyrða að aðkoma ólíkra fræðigreina eykur á dýpt umræðunnar um liðna tíma. Innlegg Guðrúnar Gísladóttur, Egils Erlendssonar, Sigrúnar Daggar Eddudóttur og Leones Tinganelli treysti skilning viðstaddra á því sem sem sagnfræðingarnir höfðu fram að færa.

Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar

nóvember 2018

Oft er talað um að íslenska þjóðin hafi fyrr á tímum búið við ömurlega örbirgð um langa hríð. En er þetta ekki bara goðsögn sem varð til í þjóðfrelsisbaráttunni, eitthvað sem fólk þurfti að trúa til að sannfæra sig um að sjálfstæði væri best?

Goðsögnin virðist síðan hafa verið endurunnin í þágu nýrra tíma, nú síðast að því er virðist til notkunar í vaxandi ferðaþjónustu. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að lífskjör Íslendinga voru ekkert verri en annarra þjóða í nágrenninu, á sumum sviðum jafnvel betri ef eitthvað var. Landnámið og búsetan hafði þó í för með sér verulegt álag á gróðurþekju, skóga og jarðveg því landnemar notuðu sömu landbúnaðartækni og í heimalöndunum en gróðurinn er hér viðkvæmari en þar.

Myndin er samt mun flóknari en oftast er látið í veðri vaka og mikilvægt að hafa í huga að mismunandi álag var á landið eftir tímabilum, landshlutum og búsháttum.

Nokkrir þeirra fræðimanna sem rannsakað hafa þessa sögu munu 8. desember næstkomandi flytja erindi á málþingi um þessi mál í sal Þjóðminjasafnsins. Það eru Sögufélag og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands sem standa að málþinginu.

Tveir þeirra sem erindi halda eru með bækur á jólamarkaði, þeir Axel Kristinson með Hnignun, hvaða hnignun?, og Árni Daníel Júlíusson með Af hverju strái. Í þeim báðum eru, með ólíkri nálgun, færð rök að því að hin hefðbundna hugmynd um vesæla þjóð í vondu landi standist á engan hátt.

Frummælendur og umræðuefni eru:

14.00 Guðrún Gísladóttir, Egill Erlendsson, Sigrún Dögg Eddudóttir og Leone Tinganelli: Gróður og jarðvegur eftir landnám.

14.20 Axel Kristinsson: Vistmorðingjar: Rapa Nui og Ísland.

14.50 Helgi Þorláksson: Danir sýknir. Hvað svo?

15.10 Árni Daníel Júlíusson: Bjuggu 100.000 manns á Íslandi á 14. öld?

Eins og áður sagði verðu málþingið haldið þann 8. desember 2018 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 14.00. Fundarstjóri er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!

Bókamessa og fullveldisganga

nóvember 2018

Sögufélag mun kynna allar bækurnar sem út komu í haust á Bókamessu í bókmenntaborg í Hörpu helgina 24. – 25. nóvember. Nokkrir höfundanna munu verða á staðnum að árita bækur sínar sem verða boðnar á góðu verði.

Bókamessan er opin báða dagana frá kl. 11 til 17.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur verður með sögugöngu í tengslum við Bókamessuna frá Hörpu sunnudaginn 25. nóvember kl. 15.

Gengið verður um miðbæ Reykjavíkur og staldrað við hjá byggingum og stöðum sem tengjast sögulegum viðburðum ársins 1918 í aðdraganda þess að Ísland varð fullvalda.
Þá gekk á ýmsu bæði í mannlífi og náttúru: Kötlugos, jökulhlaup, frostaveturinn mikli og hin skæða spænska veiki sem kom um 500 Íslendingum í gröfina. Þann fyrsta desember þetta ár átti hins vegar sá merki og jákvæði atburður sér stað að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Gunnar Þór segir frá á skemmtilegan og lifandi hátt eins og honum einum er lagið. Í göngunni verður farið á slóðir fullveldis sem hann fjallar um í bók sinni Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Bókin kom nýlega út hjá Sögufélagi í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Lagt verður af stað kl. 15:00 og gengið frá listaverki Ólafar Pálsdóttur, Tónlistarmanninum við Hörpu. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.