Vel heppnað Sögukvöld

júní 2018

Í tilefni útgáfu vorheftis Sögu – Tímarits Sögufélags var efnt til Sögukvölds fimmtudagskvöldið 31. maí. Óhætt er að fullyrða að viðburðurinn hafi verið vel sóttur, en vel á sjöunda tug gesta hlýddi á fjóra greinahöfunda kynna verk sín.

Ritstjórarnir Erla Hulda Halldórsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson kynntu efni haustheftis 2017 og vorheftisins nýja. Saga sem verður sjötug á næsta ári sýnir engin ellimerki enda einn helsti vettvangur íslenskra sagnfræðinga af öllum kynslóðum. Í heftunum tveimur er að finna fjölda ritrýndra greina, viðhorfsgreina og annars forvitnilegs efnis fyrir þá sem hafa áhuga á og unna sögunni.

Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, ritaði grein í haustheftið 2017. Þar fjallaði hann um ættarnöfn á Íslandi og deilur um þau á árunum 1850-1925. Páll flutti áhugavert og líflegt erindi um efnið sem kveikti fjölmargar spurningar hjá viðstöddum.

Næst tók Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, til máls og fjallaði um ímynd „ástandsstúlkunnar“ á stríðsárunum. Hafdís Erla náði eyrum gesta svo um munaði enda merkilegur og magnaður tími í sögu þjóðarinnar til umfjöllunar. Grein hennar birtist einnig í hausthefti Sögu.

Eftir að gestir höfðu gætt sér á veitingum, sötrað kaffi, keypt bækur og spjallað um heima, geima og efni erindanna tók Erla Dóris Halldórsdóttir til máls. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og með doktorsgráðu í sagnfræði. Óhætt er að segja að salinn hafi sett hljóðan meðan hún talaði af mikilli þekkingu um svokallaða barnsfarasótt og smitleiðir hennar. Sóttin sú varð fjölmörgum sængurkonum að bana uns vísindamenn áttuðu sig á hvað ylli henni. Síðastur í pontu var Þorsteinn Vilhjálmsson, fornfræðingur og þýðandi. Hann bauð gestum með sér í raðir skólapilta við Lærða skólann á 19. öld og ræddi um dagbækur Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og hinsegin rými í skólanum og utan hans. Foucault var auðvitað einnig nálægur .

Efni þeirra Erlu Dórisar og Þorsteins er enn betur gert skil í nýjasta hefti Sögu sem Vilhelm Vilhelmsson hvatti gesti til að kaupa og gerast áskrifendur. Jafnframt örvaði ritstjórinn sagnfræðinga og aðra til að senda inn efni af allskyns tagi sem birst gæti í tímaritinu.

Það voru glaðir og uppfræddir gestir sem gengu út í fagurt lokakvöld maímánaðar ársins 2018 fullir tilhlökkunar eftir næsta Sögukvöldi.