Um Sögufélag

Sögufélag var stofnað árið 1902. Félagið starfar eftir lögum sem það þá setti sér, með áorðnum breytingum. Segir svo í annarri grein: „Markmið félagsins er að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni, einkum um sögu Íslands. “Með starfi sínu vill Sögufélag auka þekkingu, skilning og áhuga á sögu Íslands, og ná til almennings, fræðimanna, sagnfræðinema og annars áhugafólks um sögu. Sögufélag vill vera sýnilegt í samfélaginu, miðla efni og efla samtal um sögu og sagnfræði. Það gerir félagið með útgáfustarfsemi sinni, málþingum, höfundakvöldum og öðru þess háttar. Félagið hefur jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni.

Sögufélag gefur út tímaritið Sögu og vönduð sagnfræðirit um sögu Íslands og annað sögulegt efni. Útgefin rit félagsins skulu vera fjölbreytt að efnisvali og gefin út á prenti eða með rafrænum hætti. Áherslur og forgangsröðun má sjá í útgáfustefnu Sögufélags.

Sögufélag miðlar upplýsingum um starfsemi sína með því að kynna viðfangsefni sín skipulega, vekja umræðu um útgáfur sínar og stuðla markvisst að samræðu í samfélaginu um söguleg efni. Í miðlunarstefnu eru leiðir að markinu skilgreindar frekar.

Sögufélag starfrækir útgáfusjóð og ver honum til sérstakra útgáfuverkefna sem hafa mikið gildi fyrir sögu og menningu landsins, eftir því sem stjórn félagsins ákveður. Í starfsreglum útgáfusjóðs er ráðstöfun hans og verklag skilgreint.

Sögufélag á frumkvæði að samstarfi við stofnanir, skóla, fræði- og menningarfélög til að ná markmiðum sínum.

Skrifstofa og stjórn

Skrifstofa Sögufélags er í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 og er opin mánudaga og þriðjudaga kl. 13-17. Framkvæmdastjóri Sögufélags, Brynhildur Ingvarsdóttir, er við þá og hún svarar einnig erindum sem berast á netfangið sogufelag[hjá]sogufelag.is eða í síma 781 6400. Fréttir og upplýsingar um viðburði á vegum félagsins má einnig finna á fréttasíðunni og á fésbókarsíðu Sögufélags.

Stjórn Sögufélags frá apríl 2019 og áfram

Forseti
Hrefna Róbertsdóttir forseti[hjá]sogufelag.is

Ritari
Örn Hrafnkelsson orn[hjá]landsbokasafn.is

Gjaldkeri
Brynhildur Ingvarsdóttir gjaldkeri[hjá]sogufelag.is

Meðstjórnendur
Hjalti Hugason, hhugason[hjá]hi.is
Markús Þ. Þórhallsson, mth39[hjá]hi.is

Helga Maureen Gylfadóttir, helga.maureen.gylfadottir[hjá]reykjavik.is

Sumarliði R. Ísleifsson, sumarlidi[hjá]hi.is

Uppruni og markmið

Sögufélag var stofnað 7. mars 1902. Forgöngu um félagsstofnunina höfðu þrír einstaklingar, Jón Þorkelsson landsskjalavörður, Hannes Þorsteinsson ritstjóri og Jósafat Jónasson ættfræðingur (þekktari undir nafninu Steinn Dofri). Meginmarkmið félagsins var í upphafi að gefa út heimildir um sögu Íslands sem almenningi voru enn hulinn leyndardómur, eins og forgöngumennirnir komust að orði. Það var engin tilviljun að Sögufélag leit dagsins ljós í upphafi 20. aldar þegar hillti undir nýjan áfanga í sjálfstæðissókn landsmanna. Heimastjórn var á næsta leiti og mikil þörf á að styrkja vitund Íslendinga um sjálfa sig sem þjóð í fortíð og samtíð. Sögufélag var stofnað til að treysta grundvöll rannsókna á fortíð Íslendinga og skerpa sögulega vitund þeirra um sameiginlega reynslu í blíðu og stríðu.

Að þessu marki vann félagið kappsamlega fyrstu áratugina undir forystu mikilvirkra fræðimanna sem stjórnuðu jafnframt þjóðskjalasafni landsins. Meðal grundvallarrita sem félagið gaf þá út má nefna Biskupa- og skólameistarasögur Jóns Halldórssonar í Hítardal og sjálfsævisögu séra Jóns Steingrímssonar. Skömmu eftir stofnun félagsins hófst útgáfa á Alþingisbókum Íslands – viðamesta heimildaflokknum sem félagið hefur fram til þessa komið á prent, sautján þykkum bindum. Útgáfa Alþingisbókanna tók líka nærri átta tugi ára. Auk þess hefur félagið gefið út tímaritin Blöndu, Nýja sögu og Sögu, en það síðastnefnda kemur enn út tvisvar á ári.

Á síðustu þremur áratugum hefur félagið lagt sig fram um að gefa út vönduð yfirlitsrit um sögu lands og þjóðar. Má þar nefna Íslandssögu til okkar daga eftir Björn Þorsteinsson og Bergstein Jónsson (1991), og Ísland á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson, hvort tveggja rit sem náðu mikilli útbreiðslu meðal almennings.

Aðsetur og húsnæði

Lengi framan af átti Sögufélag sér engan fastan samastað í tilverunni. Á þessu varð breyting árið 1975 í forsetatíð Björns Þorsteinssonar, en þá fékk félagið inni í leiguhúsnæði í Garðastræti 13b (Hildibrandshúsi). Árið 1991 keypti Sögufélag síðan hús í Fischersundi af Reykjavíkurborg. Sögufélag starfaði í Fischersundi til ársins 2012 og naut þess að hafa eigið húsnæði undir reksturinn og ýmsa starfsemi tengda honum, bóksölu, fundaaðstöðu og nokkurs konar „félagsheimili“ sagnfræðinga og annars áhugafólks um liðna tíð. Árin 1975-2011 var Ragnheiður Þorláksdóttir starfsmaður Sögufélags og persónugervingur þess í augum félagsmanna og viðskiptavina. Snemma árs 2012 flutti Sögufélag sig um set og húsið í Fischersundi var selt. Næstu ár var afgreiðsla Sögufélags með Hinu íslenska bókmenntafélagi í Skeifunni 3b og var náin samvinna með félögunum og á tímabili sá Hið íslenska bókmenntafélag um dreifingu á nýrri bókum Sögufélags. Árið 2016 flutti Sögufélag hins vegar úr Skeifunni og fékk inni í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands á Dyngjuvegi 8. Haustið 2017 tók félagið jafnframt alfarið við dreifingu á eigin bókum. Gunnarshús er sögufrægt hús, en það byggðu Gunnar Gunnarsson rithöfundur og kona hans Franzisca Antonia Josephine Jørgensen á árunum 1950-1952. Sögufélag hefur góða aðstöðu í þessu fallega húsi með skrifstofu sína og ýmsa viðburði.

Forsetar Sögufélags

Jón Þorkelsson 1902-1924
Hannes Þorsteinsson 1924-1935
Einar Arnórsson 1935-1955
Þorkell Jóhannesson 1955-1960
Guðni Jónsson 1960-1965
Björn Þorsteinsson 1965-1978
Einar Laxness 1978-1988
Heimir Þorleifsson 1988-2001
Loftur Guttormsson 2001-2005
Anna Agnarsdóttir 2005-2011
Guðni Th. Jóhannesson 2011-2015
Hrefna Róbertsdóttir 2015-

Heiðursfélagar Sögufélags

Einar Arnórsson (1917)

Klemens Jónsson (1917)

Hannes Þorsteinsson (1920)

Sighvatur Borgfirðingur Grímsson (1920)

Einar Laxness (2006)

Sigríður Th. Erlendsdóttir (2008)

Anna Agnarsdóttir (2017)