Stefndi Ísland til Andskotans? Áhugaverð málstofa á Hugvísindaþingi

mars 2019

Fyrir jólin 2018 gaf Sögufélag út bók Axels Kristinssonar, Hnignun, hvaða hnignun? Þar færði höfundur rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingu í sögu Íslands sé pólitísk goðsögn ‒ mýta ‒ sem búin hafi verið til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og þjónað þörfum hennar með því að mála erlend yfirráð sem dekkstum litum.

Goðsögnin sannfærði Íslendinga um að dönsk stjórn hefði reynst þjóðinni ákaflega óheillavænleg og því bæri að stefna að sjálfstæði. Vitaskuld eru ekki allir á sama máli og Axel.

Því er efnt til málstofu á Hugvísindaþingi þar sem tekist verður á um þætti í röksemdafærslu hans með yfirskriftinni „Stefndi Ísland til Andskotans?“ Málstofan fer fram laugardaginn 9. mars kl. 15:00 til 16:30 í stofu 311 í Árnagarði.

Gunnar Þór Bjarnason stýrir umræðum milli málshefjenda, Axels Kristinssonar, Orra Vésteinssonar og Árna Daníels Júlíussonar.

Öllu áhugafólki um Íslandssöguna á eftir að finnast spennandi að fylgjast með og taka þátt í umræðum um þessar spennandi en umdeildu hugmyndir!