Sögukvöld Sögufélags á Þjóðskjalasafni Íslands 31. maí kl. 19.30-22

maí 2018

Ættarnöfn, ástandsstúlkur, barnsfarasótt og hinsegin rými

Út er komið nýtt hefti af Sögu – Tímariti Sögufélags og fimmtudaginn 31. maí kl. 19.30-22 efnir Sögufélag til Sögukvölds á Þjóðskjalasafni Íslands. Sögukvöldið er að þessu sinni tileinkað bæði vorheftinu 2018 og haustheftinu 2017.

Ritstjórar Sögu, þau Erla Hulda Halldórsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson, kynna efnið stuttlega og nokkrir greinahöfundar ræða viðfangsefni sín nánar og svara spurningum. Tveir höfundar haustheftisins 2017 ríða á vaðið. Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fjallar um ættarnöfn á Íslandi og deilur um þau á árunum 1850-1925. Því næst ræðir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, um ímynd hinnar svokölluðu ástandsstúlku á stríðsárunum, einkum út frá upplýsingum í skjalasafni Ungmennaeftirlitsins.

Að loknu stuttu hléi stíga svo á stokk tveir höfundar vorheftisins 2018. Erla Dóris Halldórsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, talar um barnsfarasótt og smitleiðir hennar, og Þorsteinn Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fornfræðingur og þýðandi, ræðir um dagbækur Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og hinsegin rými í Lærða skólanum á 19. öld.

Í nýjasta heftinu af Sögu eru auk þess áhugaverðar greinar um skjalasöfn hreppstjóra og stjórnsýsluþróun, gestgjafahlutverk húsmæðra í íslenskum matreiðslubókum og athafnasemi vesturfarakvenna. Þá er fátt eitt nefnt af þeim fjölbreytta og skemmtilega fróðleik sem þarna er boðið upp á.

Saga: Tímarit Sögufélags hóf fyrst göngu sína árið 1949 og hefur síðan 2002 komið út tvisvar á ári, að vori og hausti. Í Sögu birtast ritrýndar fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum sagnfræði og sögulegra fræða og tímaritið hefur löngu áunnið sér sess sem eitt fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga og söguáhugamanna.

Á Sögukvöldinu gefst gott tækifæri til að fá kynningu á Sögu og er fólk hvatt til að fjölmenna. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Sögukvöldið hefst kl. 19.30 í Fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162.