Glatt var á hjalla og notaleg stemming í Gunnarshúsi á fjölmennu höfundakvöldi Sögufélags miðvikudagskvöldið 20. nóvember. Kynnir kvöldsins, Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins, reið á vaðið þegar hún sagði frá starfi félagsins á árinu, meðal annars í kynningar- og ímyndarmálum og greindi frá því að nýlega hefðu orðið til 102 (misalvarlegar) tillögur að nýju slagorði Sögufélags, sem uppskáru gleðihlátur og afar jákvæð viðbrögð: Sögufélag – vettvangur gærdagsins.

Annar ritstjóra tímaritsins Sögu, Kristín Svava Tómasdóttir kynnti haustheftið sem nú er komið út, glóðvolgt úr prentsmiðjunni. Hún sló á létta strengi líkt og Brynhildur og færði gestum m.a. hugmyndir að bráðsmellnum slagorðum fyrir Borgarsögusafn. Það var þó utan dagskrár, tímaritið Saga með glæsilegri kápumynd af málverki Ásgríms Jónsonar af Eyjafjallajökli var til umræðu.

Saga er sem endranær stútfull af áhugaverðu efni af ýmsu tagi en að þessu sinni kynnti Þorsteinn Vilhjálmsson greinina „Kaupstaðarsótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“. Sárasótt, skuggalega vertshúsið White Star og Hádegisblaðið komu m.a. við sögu í máli hans.

Að því loknu fjallaði Vilhelmína Jónsdóttir um grein sína „„Ný gömul hús“. Um aðdráttarafl og fortíðleika í nýjum miðbæ á Selfossi.“ Grein Vilhelmínu vekur án efa athygli enda margir áhugasamir um húsagerðarlist og nærumhverfi sitt og fyrirhuguð uppbygging nýja miðbæjarins á Selfossi hefur verið um margt umdeild.

Margrét Gunnarsdóttir steig að því búnu í pontu með níðþungt fjórða bindi Landsnefndarinnar fyrri undir handleggnum. Rauðir miðar stungust víða út úr bókinni og greinilegt að Margrét hafði kynnt sér efnið vel. Spjall hennar við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur var enda mjög upplýsandi og skemmtilegt fyrir gesti.

Í þessu fjórða bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá háembættismönnum landsins, þ. á m. Skúla Magnússyni. Í spjallinu kom fram að mögulega hefði komið til greina að skipta þriðja og fjórða bindi í þrennt en torvelt getur reynst að átta sig á umfangi bóka af þessu tagi fyrirfram og því er fjórða bindið jafn mikið að vöxtum og raun ber vitni.

Að loknu kaffihléi settist Örn Hrafnkelsson niður með Guðmundi Jónssyni en þeir spjölluðu um Nýtt Helgakver: Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar. Þeir ræddu meðal annars um kúnstina að halda afmælisriti leyndu fyrir afmælisbarninu sjálfu og vandkvæði þess að samræma ritreglur ólíkra fræðimanna í vönduðu riti sem þessu. Efni bókarinnar er enda margvíslegt en í henni eru 20 greinar um sögu og bókmenntir miðalda, samfélag og náttúru, skáld og lærdómsmenn og menntun og stjórnmál.

Örn og Guðmundur rómuðu Helga Skúla mjög, sem einstakan fræðimenn og fyrir ósérhlífni sína, elju og greiðvikni við samferðafólk sitt. Enda kvað að minnsta kosti einn höfunda hafa staðið frammi fyrir því að hafa ekki getað leitað til hans um yfirlestur líkt og venja hans mun hafa verið.

Rúsínan í pylsuendanum voru samræður Sumarliða Ísleifssonar og Unnar Birnu Karlsdóttur um glæsilega bók þeirrar síðarnefndu Öræfahjörðina: Sögu hreindýra á Íslandi. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar um hreindýrin sjálf og um viðhorf landsmanna til þeirra.

Líkt og hjá öðrum þeim sem á undan töluðu var gleðin og léttleikinn í fyrirrúmi – en fræðilegar áherslur jafnframt skammt undan.  Þau ræddu vítt og breitt um þetta glæsilega rit, sögu hreindýranna og stórkarlalegar veiðisögur og sögur um veiðiþjófnað bar jafnvel á góma – þótt ekki væri farið mjög djúpt í það viðkvæma efni.

Fyrstu hreindýrunum var ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum á seinni hluta 18. aldar, en í máli Unnar Birnu kom fram að skipulagið í kringum þau hafi ekki endilega verið með besta móti til að byrja með. Sömuleiðis hafi einhverjir talið það fyrir neðan virðingu menntaðs ræktunarsamfélags að taka við dýrum sem hirðingjar að jafnaði annast.  Sumarliði hafði á orði að það gleddi hann að skrælingjar væru nefndir í Öræfahjörðinni og Unnur Birna hvatti gesti til að lesa bókina.

Nýjustu bækur Sögufélags voru einmitt til sölu á frábæru tilboði þetta kvöld og gengu margir gestir út í nóvemberkvöldið, saddir og sælir með gleðibros á vörum og áritaða bók undir handleggnum.