Samningur undirritaður um útgáfu á skjölum yfirréttarins

Þann 7. maí síðastliðinn var undirritaður samningur milli Alþingis, Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags um útgáfuverkefni til tíu ára. Gefnir verða út dómar og skjöl yfirrréttarins á Íslandi og aukalögþinga. Yfirrétturinn starfaði á Þingvöllum árin 1563-1800 og eru elstu varðveittu dómskjölin fráárinu 1690. Fyrsta bindi ritraðarinnar kom út árið 2011 og tók til áranna 1690-1710, næsta bindi mun koma út árið 2021 og inniheldur skjöl frá árunum 1711-1730. Skjölin verða bæði gefin út á bók og á vef Þjóðskjalasafns.

Útgáfan er styrkt af Alþingi í tilefni aldarafmæli Hæstaréttar Íslands 2020 og var forseta þingsins falið að ganga til samstarfs við Sögufélag og Þjóðskjalasafn um útgáfuna.

Samninginn undirrituðu Auður Elva Jónsdóttir fjármála- og rekstrarstjóri fyrir hönd Alþingis, Anna Elínborg Gunnarsdóttir sviðsstjóri fyrir hönd Þjóðskjalasafns og Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Sögufélags. Viðstödd voru einnig Þorsteinn Magnússon aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur og annar ritstjóra útgáfunnar.