Ritstjóraskipti hjá tímaritinu Sögu

apríl 2019

Erla Hulda Halldórsdóttir dósent í sagnfræði hefur verið annar af ritstjórum SÖGU síðastliðin tvö ár, en hún og Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tóku við ritstjórn SÖGU í ársbyrjun 2016. Hún ritstýrði farsællega fjórum heftum af tímaritinu en hefur nú látið af þeim störfum.

Tímaritið SAGA hefur verið kröftugt þessi ár, blanda af fræðilegum greinum, viðhorfum, andmælum og ritdómum. Áhersla hefur einnig verið lögð á að birta bálka um álitamál sem tengjast samtímaumræðu. Þannig tengist fortíðin og nútíðin. Við ritstjórasæti Erlu Huldu tekur Kristín Svava Tómasdóttir sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, sem verður ritstjóri næstu tvö árin ásamt Vilhelm.

SAGA er einn mikilvægasti vettvangur fræðilegrar umræðu um íslenska sagnfræði þar sem öll tímabil og tegundir sögu eiga sinn sess. Tímaritið kemur út tvisvar á ári. Erlu Huldu Halldórsdóttur er hér með þakkað kærlega fyrir öfluga og styrka ritstjórn og Kristín Svava Tómasdóttir nýr ritstjóri boðin hjartanlega velkomin!