Ný bók á leiðinni: Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi

ágúst 2019

Í febrúar gaf Sögufélag út bókina Nýtt Helgakver, greinasafn til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum.

Nú er gaman að segja frá því að önnur bók ársins er á leiðinni; Öræfahjörðin: Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur hefur verið send í prentsmiðju og kemur út í október.

Bók Unnar er fyrsta ritið sem fjallar heildstætt um sögu hreindýra á Íslandi og samband þeirra við landsmenn. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands árið 1771 frá Finnmörku í Noregi og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Fljótlega var farið að veiða þau en undir lok 19. aldar var aftur á móti farið að ljá máls á nauðsyn þess að friða þau og vernda fyrir útrýmingu. Á 20. öld skiptu stjórnvöld sér í vaxandi mæli af fjölgun, útbreiðslu og nýtingu hreindýrastofnsins á Íslandi – svo mjög að sumum þótti sem þau væru ekki lengur sannkölluð börn öræfanna heldur hreindýrahjörð ríkisins.

Í rannsóknum Unnar er sjónum jafnan beint að sambandi manns og náttúru, Öræfahjörðin engin undantekning þar á. Bókin segir þannig jafnt sögu hreindýranna sjálfra sem og viðhorfa manna til þeirra. Hugmyndasaga af bestu sort.