Saga er komin út

Hausthefti Sögu 2020 er komið út og er dreifing yfirstandandi. Hinum vanalega útgáfufögnuði hefur verið frestað og vonandi verður hægt að taka á móti fólki á sögukvöldi í Gunnarshúsi eftir áramót. 

Í heftinu kennir ýmissa grasa og fyrst ber að nefna þrjár ritrýndar greinar. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir skrifar um landnám kynjasögunnar á Íslandi á þessari öld, Hjalti Hugason fjallar um heimagrafreiti á Íslandi á nítjándu og tuttugustu öld og Brynja Björnsdóttir skrifar um réttarstöðu kvenna vegna heimilisofbeldis hér á landi frá 1800 til 1940.

Í flokknum Saga og miðlun skrifar Súsanna Margrét Gestsdóttir um tækifæri og aðferðir í sögukennslu á tölvuöld. Við birtum jafnframt stutt viðtal við Sverri Jakobsson, formann þingstjórnar fimmta íslenska söguþingsins sem haldið verður í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð dagana 27.–29. maí 2021.

Kristjana Vigdís Ingvadóttir á Þjóðskjalasafni Íslands skrifar grein fyrir þáttinn Úr skjalaskápnum og fjallar um skjöl sem varða fjársöfnun Íslendinga handa Dönum í kjölfar fyrra Slésvíkurstríðsins um miðja nítjándu öld.

Guðmundur Jónsson skrifar grein til minningar um Gísla Gunnarsson, prófessor emeritus í sagnfræði, sem lést í apríl.

Loks eru birtir sjö ritdómar og ein ritfregn um nýleg verk á sviði sagnfræði.