Landsnefndin fyrri III: Útgáfuhóf í Þjóðskjalasafni Íslands 27. september kl. 17-18:30

september 2018

Þriðja bindið af Landsnefndinni fyrri er komið út og verður útgáfunni fagnað með hátíðardagskrá fimmtudaginn 27. september kl. 17-18:30. Útgáfuhófið er haldið í fundarsalnum Viðey í Þjóðskjalasafni Íslands, Laugavegi 162.

Dagskrá

17:00 Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur segir frá útgáfu Landsnefndarskjala og bréfum embættismanna og kaupmanna sem koma út í þriðja bindi verksins. Hrefna er ritstjóri bæði þessa og fyrri binda ásamt Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur sagnfræðingi.

17:15 Jón Torfi Arason sagnfræðingur fjallar um Magnús Ketilsson sýslumann og skrif hans 1771 sem birtast í hinu nýútgefna riti.

17:30 Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður fjallar um Dönsku sendinguna 1928 og landsnefndarskjöl sem þar er að finna. Danska sendingin fól í sér mikið magn skjala varðandi Ísland sem Danir afhentu Íslendingum þetta ár.

Af þessu tilefni verður líka sett upp sýning á frumritum skjala Landsnefndarinnar.

Bókin verður til sölu á staðnum og fæst á góðu tilboði.

Landsnefndin fyrri var þriggja manna nefnd á vegum konungs sem ferðaðist um Ísland á árunum 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land, þjóð og aðstæður í samfélaginu. Embættismenn landsins fengu sértækar spurningar frá nefndinni um allar hliðar samfélagsins á Íslandi, svo sem um fólksfjölda, kirkju, heilbrigðismál, verslun, handverk, landbúnað, sjávarútveg, samgöngur og margt fleira. En almenningur var hvattur til að senda nefndinni sína sýn á landsins gagn og nauðsynjar að ógleymdum eigin aðstæðum.

Í skjalasafni Landsnefndarinnar eru því bréf frá almenningi, prestum, sýslumönnum og öðrum embættismönnum, auk greinargerða og margvíslegra gagna frá nefndarmönnum sjálfum.

Landsnefndarskjölin gefa einstæða innsýn í hugarfar, venjur og siði almennings og embættismanna á Íslandi, auk afstöðu danskra stjórnvalda til þeirra fjölmörgu mála sem Íslendingar gerðu að umtalsefni í lok 18. aldar. Í þessu nýútkomna bindi eru birt 36 bréf til Landsnefndarinnar frá embættismönnum landsins.

Þjóðskjalasafn Íslands gefur skjöl Landsnefndarinnar fyrri út í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag. Útgáfan hófst árið 2016 og verða bækurnar sex talsins, með uppskriftum skjala og fræðilegum greinum, auk vefbirtingar ljósmynda af frumskjölunum og uppskrifta á þeim.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu, og er fólk hvatt til að fjölmenna.