Kristín Svava hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis. Stáss innan fræðanna!

mars 2019

Það er Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur, ljóðskáld og annar ritstjóra Sögu sem hlýtur viðurkenningu Hagþenkis fyrir árið 2018. Viðurkenninguna hlýtur hún fyrir bók sína Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gefur út. Niðurstaðan var tilkynnt við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Landsbókasafns þann 6. mars, en þetta er í 32. sinn sem viðurkenningin er veitt.

Að mati viðurkenningarráðs Hagþenkis er hér á ferðinni sannkallað brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenningarráðið lagði mat á öll fræðirit, prentuð náms­gögn og aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings sem komu út á ís­lensku árið 2018, um sextíu talsins. Í lok janúar var tilkynnt hvaða tíu verk hlytu tilnefningar og eins og áður sagði varð Stund klámsins hlutskarpast að þessu sinni.

Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur sem tilkynnti um verðlaunin sagði að þótt verkið væri mögulega ekki stofustáss vegna vandmeðfarins efnisins væri það óneitanlega stáss innan fræðanna.

Í umsögn ráðsins sagði jafnframt: „Stund klámsins er þannig saga hugmyndar, saga hugtaks, hvernig það hefur verið notað á ólíkan hátt og hverjir hafa ráðið því hvaða merking var lögð í það.“ Sömuleiðis að sagan sem í bókinni væri sögð ætti erindi við alla þá sem velta kynverund Íslendinga fyrir sér og að hún væri einnig veglega og glæsilega gerð af hendi Sögufélags. Sérstaklega var tekið til hversu hún væri ríkulega myndskreytt sem yki innihald hennar mjög.

Auk Auðar Styrkársdóttur sátu Ásta Krist­ín Bene­dikts­dótt­ir ís­lensku­fræðing­ur, Henry Al­ex­and­er Henrys­son heim­spek­ing­ur og Svan­hild­ur Kr. Sverr­is­dótt­ir mennt­un­ar­fræðing­ur í viðurkenningarráðinu.

Það var formaður Hagþenkis, Jón Yngvi Jóhannsson, sem afhenti Kristínu Svövu viðurkenningarskjal, blómvönd og 1250 þúsund króna verðlaunafé.

Í þakkarræðu sinni velti Kristín Svava fyrir sér hvar hin samfélagslegu mörk gætu legið, talaði um hvernig bókin væri hennar sveinsstykki fimm árum eftir að formlegu meistaranámi hennar var lokið og hversu mikið hún ætti öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum að þakka.

Sérstaklega nefndi Kristín Ragnheiði Kristjánsdóttur leiðbeinanda sinn við ritgerðasmíðina forðum sem hvatt hafði höfundinn til að koma henni til útgefanda. Bókin er byggð á meistaraverkefni hennar en „hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakstur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar“, líkt og sagði í umsögn viðurkenningarnefndar Hagþenkis.

Kristín Svava tileinkaði öllum sögu- og sagnfræðikennurum sínum viðurkenninguna.

Að athöfn lokinni var afhjúpaður sýningarkassi í anddyri Landsbókasafns tengdur efni Stundar klámsins.

Kristín Svava er vel að viðurkenningunni komin fyrir sitt fyrsta fræðilega verk. Óskar Sögufélag henni sérstaklega til hamingju og einnig öllum þeim öðrum sem tilnefningar hlutu.