Klám og hnignun: Útgáfuhóf í Bókabúð Forlagsins 25. október kl. 17-18:30

október 2018

Það gætir ferskra strauma hjá Sögufélagi sem fagnar nú útgáfu tveggja áleitinna sagnfræðirita.

Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir sagnfræðinginn Kristínu Svövu Tómasdóttur er fyrsta fræðilega verkið um sögu kláms á Íslandi. Rýnt er í hugmyndir um klám sem andstæðu upplýsandi fræðslu og listrænnar tjáningar, um kynfrelsi og bælingu, ritskoðun og tjáningarfrelsi, ónáttúru og afbrigðilegar hneigðir. Við sögu kemur ýmislegt sem ekki hefur verið rætt í samhengi Íslandssögunnar hingað til – enda stranglega bannað börnum.

Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir sagnfræðinginn Axel Kristinsson fjallar á gagnrýnin hátt um hugmyndina um eymdarskeið í sögu Íslands. Gékk landið í gegnum tíma hnignunar og volæðis eins og haldið hefur verið fram? Voru Íslendingar fátækir, frumstæðir og vesælir? Var Ísland fátækasta land Evrópu? Axel færir sterk rök fyrir því að hugmyndin um slíkt niðurlægingarskeið sé í raun pólitísk goðsögn, sköpuð í þjónustu margs konar hugmyndafræði.

Enginn áhugamaður um sögu landsins ætti að láta þessar bækur fram hjá sér fara. Þær verða báðar til sölu á góðu tilboði í útgáfuhófinu sem er haldið fimmtudaginn 25. október kl. 17-18:30 í Bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39. Í boði er skemmtileg dagskrá með andlegri næringu og léttum veitingum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er sérstakur heiðursgestur og flytur ávarp við þetta tilefni. Guðni sem er sagnfræðingur gegndi embætti forseta Sögufélags árin 2011 til 2015 og gjörþekkir því starfsemi þessa smáa en öfluga útgáfufélags.

Þá kemur Markús Þ. Þórhallsson sagnfræðingur fram fyrir hönd stjórnar Sögufélags og segir nokkur orð um nýju bækurnar. Jafnframt kynna höfundarnir verk sín sjálfir. Tækifæri gefst til að spjalla við þau Kristínu Svövu og Axel sem eru boðin og búin til að árita bækur sínar sé þess óskað.
í Bókabúð Forlagsins má jafnframt nálgast eldri bækur Sögufélags sem allar fást með 15% afslætti.

Sögufélag hefur allt frá því það var stofnað árið 1902 sérhæft sig í útgáfu vandaðra sagnfræðilegra ritverka og hefur með starfsemi sinni átt drjúgan þátt í að efla sagnfræði í landinu sem lifandi fræðasamfélag.

Allir eru velkomnir í útgáfuhófið, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu, og fólk er hvatt til að fjölmenna.