Hvað er fullveldi?

nóvember 2018

Annar fundurinn um fullveldi Íslands var haldinn í Norræna húsinu 22. nóvember. Fjölmenni hlýddi á erindi þriggja fræðimanna sem veltu fyrir sér stóru spurningunni um hvað fullveldi raunverulega væri.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði stýrði fundi en Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Magnús K. Hannesson reifuðu efnið hvert frá sínu sjónarhorni; lögfræði og sagnfræði. Óhætt er að fullyrða að þau náðu eyrum og huga gesta með orðum sínum.

Nú í nóvember hefur Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efnt til fundaraðar með yfirskriftinni „Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd“ sem tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Nú er aðeins einn fundur eftir – þar sem velt verður upp þeirri mikilvægu spurningu hvort fullveldið sé í hættu. Hefur fullveldi Íslands einhvern tíma verið verulega skert síðan 1918? Er hætta á að Ísland glati fullveldinu í hendur ESB? Hvaða áhrif hefur það á fullveldið ef hluti valdheimilda ríkisins er framseldur annað?

Þessi síðasti fundur verður haldinn í Norræna húsinu mánudaginn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 og eru allir áhugamenn um sögu og samfélag hvattir til að mæta.