Höfundakvöld Sögufélags

nóvember 2018

Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir Axel Kristinsson

Fimm nýjar fræðibækur eru komnar út hjá Sögufélagi og verða þær kynntar með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 22. nóvember kl. 20-22. Valinkunnir menn, sagnfræðingar og fréttamenn, ræða við höfunda og ritstjóra bókanna, sem allir eru sagnfræðingar, og síðan fara fram almennar umræður. Kaffi og meðlæti eru í boði og bækurnar fást á góðu tilboðsverði. Húsið verður opnað kl. 19:30 en dagskráin hefst kl. 20. Stutt hlé verður um miðbik kvöldsins og gefst þá tækifæri til að fá höfunda og ritstjóra til að árita bækurnar.

Umræður hefjast með þriðja bindinu af Landsnefndinni fyrri og spjallar Vilhelm Vilhelmsson við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í þriðja bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá embættismönnum landsins.

Næst spjallar Helgi Skúli Kjartansson við Axel Kristinsson höfund bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Eins og titillin gefur til kynna hristir bókin upp í ýmsum rótgrónum hugmyndum um sögu Íslands. Var miðbikið í sögunni tími hnignunar og volæðis? Voru Íslendingar fátækir, frumstæðir og vesælir? Var Ísland fátækasta land Evrópu? Axel telur að þessi hugmynd um hnignun og niðurlægingu sé í raun pólitísk goðsögn, sköpuð í þjónustu margs konar hugmyndafræði.

Fundarstjóri fyrir hlé er Markús Þ. Þórhallsson sem jafnframt kynnir bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Einnig verður sagt frá nýju hausthefti Sögu: Tímarits Sögufélags.

Eftir hlé tekur Hrefna Róbertsdóttir við fundarstjórn en Markús ræðir við Guðmund Jónsson ritstjóra greinasafnsins Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918-2018. Í bókinni skoða 13 fræðimenn fullveldið frá ólíkum sjónarhornum lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði og varpa fram gagnrýnum spurningum: Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Er hægt að framselja hluta þess? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Með Guðmundi Jónssyni í ritnefnd voru þau Guðmundur Hálfdanarson, Ragnhildur Helgadóttir og Þorsteinn Magnússon.

Að lokum spjallar Brynjólfur Þór Guðmundsson við Gunnar Þór Bjarnason höfund bókarinnar Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Ríkisfáni Íslands var dreginn að hún í fyrsta sinn þann 1. desember 1918 og Ísland varð fullvalda ríki. Í bókinni er sagan um þetta rakin í lifandi og myndskreyttri frásögn, sagt frá eftirminnilegum einstaklingum, hörðum átökum og þjóðlífi í skugga heimsstyrjaldar og áfalla hið viðburðaríka ár 1918. Var þessi fámenna þjóð í stakk búin til að reka sjálfstætt ríki?

Bækurnar um fullveldið gefur Sögufélag út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

Nýju bækurnar eru fjölbreyttar að efni og má búast við fjörlegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Fólk er hvatt til að fjölmenna: Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.