Fullveldi Íslands

nóvember 2018

Fullvalda barn!Útgáfuhóf í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, fimmtudaginn 8. nóvember kl. 16

Í tilefni þess að nú eru 100 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki gefur Sögufélag út tvær veglegar bækur í samstarfi við afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Þetta var einstök upplifun. Fólki vöknaði um augu þegar það horfði á ríkisfána Íslands dreginn að hún á Stjórnarráðsbyggingunni í Reykjavík í fyrsta sinn klukkan tólf á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918. Draumur þjóðarinnar um sjálfstæði hafði ræst.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur rekur aðdragandann að þessu í lifandi myndskreyttri frásögn í bókinni Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Sagt er frá eftirminnilegum einstaklingum, hörðum átökum og þjóðlífi í skugga heimsstyrjaldar og áfalla hið viðburðaríka ár 1918. Var þessi fámenna þjóð í stakk búin til að reka sjálfstætt ríki?

Í bókinni Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 er kastljósinu beint að fullveldishugmyndinni bæði á alþjóðavísu og í íslenskum stjórnmálum og hvernig fullveldisréttinum hefur verið beitt á Íslandi á 20. öld.  Í bókinni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Hvaða hugmyndir hafa Íslendingar gert sér um fullveldi? Hvaða áhrif hefur það haft á íslenskt samfélag og samskipti þess við önnur ríki? Getur Ísland haldið fullveldi sínu í hnattvæddum heimi? Ritstjóri bókarinnar er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Útkomu þessara góðu bóka verður fagnað með skemmtilegri og sköruglegri hátíðardagskrá í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, fimmtudaginn 8. nóvember kl. 16.

Formaður afmælisnefndar, Einar K. Guðfinnsson, segir frá tilurð verkefnisins og afhendir forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, fyrstu eintökin af bókunum. Brynhildur Ingvarsdóttir, útgáfustjóri og fulltrúi Sögufélags, kynnir bækurnar og þvínæst stíga á stokk þeir Gunnar Þór Bjarnason, höfundur Hinna útvöldu, og Guðmundur Jónsson, ritstjóri greinasafnsins Frjálst og fullvalda ríki. Loks segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, nokkur vel valin orð.

Þar með lýkur formlegri dagskrá en tækifæri gefst til að gleðjast saman og spjalla við höfunda og ritstjóra bókanna. Bækurnar verða að sjálfsögðu til sölu á góðu tilboði og ljúfar veitingar eru í boði.

Allir eru velkomnir og fólk er hvatt til að fjölmenna.