Fullveldi: Hvað er það?

nóvember 2018

Er til ein kjarnamerking hugtaksins fullveldi eða eru skoðanir skiptar um inntak þess? Hefur fullveldishugtakið breyst síðan 1918? Er skilningur Íslendinga á fullveldishugtakinu frábrugðinn því sem gerist í nágrannalöndum?

Um þetta verður rætt á fundi í Norræna húsinu 21. nóvember kl. 17.00–18.15. Framsögumenn á fundinum eru Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, Ragnhildur Helgadóttir prófessor í lögum, Birgir Ármannsson alþingismaður og Magnús K. Hannesson lögfræðingur.
Fundarstjóri er Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Allir velkomnir!

 

Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd

Fundaröð í tilefni af aldarafmæli fullveldis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum.

Fundaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 sem kom út 8. nóvember. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í henni eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Ritstjóri greinasafnsins er Guðmundur Jónsson og auk hans er ritnefndin skipuð þeim Guðmundi Hálfdanarsyni, Ragnhildi Helgadóttur og Þorsteini Magnússyni.

Á umræðufundunum í Norræna húsinu flytja fjórir fræðimenn og stjórnmálamenn stuttar framsögur þar sem fengist er við mikilvægar spurningar um fullveldið í hugsjón og reynd.

Allfjörugar umræður urðu á fyrsta fundinum 14. nóvember undir yfirskriftinni Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu? Þeir sem misstu af honum þurfa þó ekki að örvænta því enn eru tveir fundir eftir. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka þátt í umræðunum bæði á fundinum 21. nóvember og þeim síðasta sem verður haldinn 26. nóvember kl. 17.00–18.15 með yfirskriftinni Fullveldið í hættu?