Fréttir

SAGA – kallað eftir efni

ágúst 2018

Ertu með grein í smíðum? Liggja niðurstöður rannsókna þinna óbirtar ofan í skúffu? Dreymir þig um að kynna verkefni þitt fyrir stórum hópi lesenda, greina frá um nýjungum í kenningum eða aðferðafræði sagnfræðinnar eða ræða um nýja þekkingu á sögu lands og þjóðar? Þá er um að gera að hafa samband við ritstjóra SÖGU. Við birtum ritrýndar greinar, ritdóma, viðhorfsgreinar, sjónrýni og margt fleira um allt sem viðkemur sögu og sagnfræði.

 

Skilafrestur fyrir efni í vorhefti SÖGU árið 2019 er 1. nóvember næstkomandi.

Tímaritið SAGA hefur fyrir löngu áunnið sér sess sem fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga. Það kemur út tvisvar á ári og í því birtast ritrýndar fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum sagnfræði og sögulegra fræða. SAGA leggur ennfremur metnað sinn í að fjalla um nýlega útkomin rit sem tengjast sögu Íslands eða íslenskum fræðaheimi.

Ritstjórar SÖGU eru dr. Vilhelm Vilhelmsson (vilhelmv@hi.is) og dr. Erla Hulda Halldórsdóttir (ehh@hi.is).


Fréttir

Aðalfundur Sögufélags 2018

júní 2018

Stjórn Sögufélags: Hjalti Hugason, Brynhildur Ingvarsdóttir, Markús Þ. Þórhallsson, Hrefna Róbertsdóttir, Gunnar Þór Bjarnason, Örn Hrafnkelsson og Íris Ellenberger

Aðalfundur Sögufélags 2018 var haldinn í fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands 31. maí síðastliðinn. Bragi Þorgrímur Ólafsson fagstjóri handritadeildar Landsbókasafns stjórnaði fundinum af röggsemi. Örn Hrafnkelsson ritaði fundinn.

Hrefna Róbertsdóttir forseti Sögufélags rakti starfsemi félagsins á liðnu ári. Hún tiltók m.a. viðburði og útgáfur á vegum félagsins. Þær bækur sem komu út árið 2017 vöktu athygli í samfélaginu, hlutu tilnefningar og verðlaun. Það er gleðiefni fyrir félagið. Hrefna kynnti útgáfustefnu næstu ára, sérstaklega þau verk sem væntanleg eru á árinu 2018. Hún áréttaði mikilvægi tímaritsins Sögu og impraði á þeim breytingum sem gætu orðið í stafrænum heimi. Að auki fagnaði forseti þeirri miklu vinnu í kortlagningu starfsins, fjármála og framtíðarsýnar sem hefur þegar skilað sér.

Brynhildur Ingvarsdóttir gjaldkeri Sögufélags fór snöfurmannlega í gegnum fjármálastöðu félagsins; tölurnar sýndu greinilega að hin mikla vinna við endurskipulagninu hefur skilað sér. Staðan er skýr og góð en áhersla verður lögð á að halda henni þannig, t.a.m. með því að endurnýja samning um rekstrarstyrk hins opinbera til Sögufélags.

Sitjandi stjórn var endurkjörin án mótframboða og er svo skipuð:

Hrefna Róbertsdóttir, sviðsstjóri varðveislu- og miðlunarsviðs hjá Þjóðskjalasafni Íslands forseti.

Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu- og endurgerðar hjá Landsbókasafni-Háskólabókasafni, ritari.

Brynhildur Ingvarsdóttir, sagnfræðingur, gjaldkeri.

Markús Þ. Þórhallsson, sagnfræðingur og dagskrárgerðarmaður, varamaður. Vef- og kynningarstjóri.

Ísir Ellenberger, sagnfræðingur, meðstjórnandi.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur, meðstjórnandi.

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands, varamaður.

Framundan er spennandi starfsár, tímaritið Saga verður áfram kjölfestan í starfseminni, fjöldi áhugaverðra bóka er væntanlegur á árinu og fleiri hugmyndir til eflingar félagsins eru í farvatninu.

 


Fréttir

Vel heppnað Sögukvöld

júní 2018

Í tilefni útgáfu vorheftis Sögu – Tímarits Sögufélags var efnt til Sögukvölds fimmtudagskvöldið 31. maí. Óhætt er að fullyrða að viðburðurinn hafi verið vel sóttur, en vel á sjöunda tug gesta hlýddi á fjóra greinahöfunda kynna verk sín.

Ritstjórarnir Erla Hulda Halldórsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson kynntu efni haustheftis 2017 og vorheftisins nýja. Saga sem verður sjötug á næsta ári sýnir engin ellimerki enda einn helsti vettvangur íslenskra sagnfræðinga af öllum kynslóðum. Í heftunum tveimur er að finna fjölda ritrýndra greina, viðhorfsgreina og annars forvitnilegs efnis fyrir þá sem hafa áhuga á og unna sögunni.

Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, ritaði grein í haustheftið 2017. Þar fjallaði hann um ættarnöfn á Íslandi og deilur um þau á árunum 1850-1925. Páll flutti áhugavert og líflegt erindi um efnið sem kveikti fjölmargar spurningar hjá viðstöddum.

Næst tók Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, til máls og fjallaði um ímynd „ástandsstúlkunnar“ á stríðsárunum. Hafdís Erla náði eyrum gesta svo um munaði enda merkilegur og magnaður tími í sögu þjóðarinnar til umfjöllunar. Grein hennar birtist einnig í hausthefti Sögu.

Eftir að gestir höfðu gætt sér á veitingum, sötrað kaffi, keypt bækur og spjallað um heima, geima og efni erindanna tók Erla Dóris Halldórsdóttir til máls. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og með doktorsgráðu í sagnfræði. Óhætt er að segja að salinn hafi sett hljóðan meðan hún talaði af mikilli þekkingu um svokallaða barnsfarasótt og smitleiðir hennar. Sóttin sú varð fjölmörgum sængurkonum að bana uns vísindamenn áttuðu sig á hvað ylli henni. Síðastur í pontu var Þorsteinn Vilhjálmsson, fornfræðingur og þýðandi. Hann bauð gestum með sér í raðir skólapilta við Lærða skólann á 19. öld og ræddi um dagbækur Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og hinsegin rými í skólanum og utan hans. Foucault var auðvitað einnig nálægur .

Efni þeirra Erlu Dórisar og Þorsteins er enn betur gert skil í nýjasta hefti Sögu sem Vilhelm Vilhelmsson hvatti gesti til að kaupa og gerast áskrifendur. Jafnframt örvaði ritstjórinn sagnfræðinga og aðra til að senda inn efni af allskyns tagi sem birst gæti í tímaritinu.

Það voru glaðir og uppfræddir gestir sem gengu út í fagurt lokakvöld maímánaðar ársins 2018 fullir tilhlökkunar eftir næsta Sögukvöldi.


Fréttir

Aðalfundur Sögufélags 2018

maí 2018

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn fimmtudaginn 31. maí kl. 18-19 í Fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Í framhaldi af aðalfundinum verður haldið Sögukvöld kl. 19.30-22, einnig í Fundarsal Þjóðskjalasafnsins, með kynningum á nýju efni í Sögu – Tímariti Sögufélags.

Viðburðirnir eru óháðir hver öðrum þannig að menn geta mætt á annan þeirra eða báða, eftir því sem hugur stendur til.


Fréttir

Sögukvöld Sögufélags á Þjóðskjalasafni Íslands 31. maí kl. 19.30-22

maí 2018

Ættarnöfn, ástandsstúlkur, barnsfarasótt og hinsegin rými

Út er komið nýtt hefti af Sögu – Tímariti Sögufélags og fimmtudaginn 31. maí kl. 19.30-22 efnir Sögufélag til Sögukvölds á Þjóðskjalasafni Íslands. Sögukvöldið er að þessu sinni tileinkað bæði vorheftinu 2018 og haustheftinu 2017.

Ritstjórar Sögu, þau Erla Hulda Halldórsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson, kynna efnið stuttlega og nokkrir greinahöfundar ræða viðfangsefni sín nánar og svara spurningum. Tveir höfundar haustheftisins 2017 ríða á vaðið. Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fjallar um ættarnöfn á Íslandi og deilur um þau á árunum 1850-1925. Því næst ræðir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, um ímynd hinnar svokölluðu ástandsstúlku á stríðsárunum, einkum út frá upplýsingum í skjalasafni Ungmennaeftirlitsins.

Að loknu stuttu hléi stíga svo á stokk tveir höfundar vorheftisins 2018. Erla Dóris Halldórsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, talar um barnsfarasótt og smitleiðir hennar, og Þorsteinn Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fornfræðingur og þýðandi, ræðir um dagbækur Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og hinsegin rými í Lærða skólanum á 19. öld.

Í nýjasta heftinu af Sögu eru auk þess áhugaverðar greinar um skjalasöfn hreppstjóra og stjórnsýsluþróun, gestgjafahlutverk húsmæðra í íslenskum matreiðslubókum og athafnasemi vesturfarakvenna. Þá er fátt eitt nefnt af þeim fjölbreytta og skemmtilega fróðleik sem þarna er boðið upp á.

Saga: Tímarit Sögufélags hóf fyrst göngu sína árið 1949 og hefur síðan 2002 komið út tvisvar á ári, að vori og hausti. Í Sögu birtast ritrýndar fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum sagnfræði og sögulegra fræða og tímaritið hefur löngu áunnið sér sess sem eitt fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga og söguáhugamanna.

Á Sögukvöldinu gefst gott tækifæri til að fá kynningu á Sögu og er fólk hvatt til að fjölmenna. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Sögukvöldið hefst kl. 19.30 í Fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162.


Fréttir

Leitin að klaustrunum: Sýningaropnun í Þjóðminjasafni Íslands laugardaginn 26. maí kl. 14

maí 2018

Klausturhald á Íslandi hófst með stofnun klausturs í Bæ í Borgarfirði árið 1030. Samtals voru þrettán klaustur stofnuð á fjórtán stöðum á kaþólsku tímaskeiði hérlendis en því síðasta var komið á fót á Skriðuklaustri árið 1493. Klaustrin urðu ásamt biskupsstólunum að umsvifamestu kirkjulegu stofnunum í landinu fram til siðaskipta. Þá var þeim lokað og kaþólsk trú bönnuð með lögum. Klausturhald féll í gleymsku og minjar eftir klaustrin týndust.

Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Í rannsókninni var leitað að hvers kyns vísbendingum um klausturhald í landinu frá 1030–1554. Notaðir voru jarðsjármælar til að kíkja undir svörðinn og könnunarskurðir grafnir þar sem vísbendingar sáust. Leitað var að klausturgripum í söfnum og kirkjum og að klausturplöntum, rústum og örnefnum úti á vettvangi. Heimildir voru lesnar, jafnt fornbréf sem þjóðsögur, auk þess sem farið var yfir kort og ljósmyndir.

Steinunn kynnir einnig rannsókn sína í samnefndri bók: Leitinni ad klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir, sem Sögufélag gaf út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands árið 2017. Þá bók má skoða sem sjálfstætt framhald af fyrri bók Steinunnar: Sögunni af klaustrinu á Skriðu árið 2012. Báðar þessar bækur voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Sagan af klaustrinu á Skriðu hlaut Fjöruverðlaunin 2012 og Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir hlaut Viðurkenningu Hagþenkis 2017 og auk þess Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana 2017.

Sýningin Leitin að klaustrunum verður opnuð 26. maí 2018 kl. 14 í Horninu á 2. hæð Þjóðminjasafnsins.

Sýningin er liður í hátíðarsýningaröð Þjóðminjasafns Íslands vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands og evrópska menningararfsársins 2018. Af þessu tilefni lánar Þjóðminjasafn Dana Þjóðminjasafni Íslands helgiskrín frá 13. öld frá Keldum á Rangárvöllum. Skrínið verður til sýnis á grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár.


Eldri Fréttir