Orðspor Williams Faulkner á Íslandi kemur út hjá Sögufélagi.

Haukur Ingvarsson skrifaði í dag undir samning um útgáfu bókar sem byggir á doktorsritgerðar hans, „Orðspor Williams Faulkner á Íslandi. Menningarsamskipti Íslands og Bandaríkjanna 1930–1960“, hjá Sögufélagi.

Haukur leitar svara við því hvernig nafn Faulkner varð til og þróaðist á íslenskum menningarvettvangi 1933–1960. Á sama tíma kannar hann samspil íslenska bókmenntakerfisins við erlend bókmenntakerfi, á tímum þegar staða landsins gagnvart umheiminum tók miklum breytingum.

Bókin verður ánægjuleg viðbót við fjölbreytta útgáfu Sögufélags.

Sumarstarfsmenn hjá Sögufélagi

Fyrir skemmstu greindum við frá því að Sögufélag hefði fengið styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir verkefnið „Margmiðlunarsíða og veflægur gagnagrunnur um tímaritið Sögu og útgáfu Sögufélags.“ Arnór Gunnar Gunnarsson hefur nú verið ráðinn til verkefnisins og mun starfa hjá Sögufélagi í sumar.

Arnór er með MA-próf í sagnfræði frá Columbia-háskóla og hann mun vinna að efnisvinnslu, textaskrifum og öðru tengdu væntanlegri vefsíðu og gagnagrunni tímaritsins Sögu.

Auk hans mun Jón Kristinn Einarsson vinna að ýmsum verkefnum á skrifstofunni. Jón er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og hefur unnið á skrifstofunni frá síðasta sumri. 

Húsfyllir á Sögukvöldi

Í tilfefni útgáfu Sögu 2020:1 var blásið til Sögukvölds í Gunnarshúsi þann 4. júní síðastliðinn. Höfundar hinna þriggja ritrýndu greina heftisins kynntu rannsóknir sínar við góðar undirtektir. Auk þess ræddi Kristín Svava Tómasdóttir, önnur tveggja ritstjóra Sögu, annað efni í tímaritinu. 

Haukur Ingvarsson hóf leik og sagði okkur frá Vestur-Íslendingnum Hjörvarði Harvard Árnasyni, sem starfaði fyrir hina bandarísku Office of War Information á Íslandi í seinni heimsstyrjöld. 

Næst steig Agnes Jónasdóttir í pontu og fræddi gesti um rannsókn sína á ástandinu og barnavernd, en talsvert misræmi var á yfirlýstum markmiðum yfirvalda í ástandinu og raunverulegum gjörðum þeirra. 

Að lokum talaði Skafti Ingimarsson um Drengsmálið svokallaða, þegar átök brutust út í Reykjavík vegna rússnesks drengs sem kommúnistaleiðtoginn Ólafur Friðriksson flutti til landsins arið 1921. Skafti færir sér í nyt áður óskoðuð gögn á danska ríkisskjalasafninu sem varpa nýju ljósi á málið. 

Langar umræður voru um öll erindin og ákaflega gleðilegt hversu margir lögðu leið sína í Gunnarshús. Við þökkum öllum fyrir komuna. 

SAGA er komin út

Vorhefti tímaritsins Sögu 2020 er komið út og er á leið til áskrifenda. Í heftinu eru þrjár ritrýndar greinar. Skafti Ingimarsson skrifar um „hvíta stríðið“ eða Drengsmálið árið 1921 á grundvelli áður óþekktra heimilda af danska Ríkisskjalasafninu, sem sýna að dönsk stjórnvöld voru reiðubúin að grípa til hernaðaraðgerða gegn uppreisnaröflum í Reykjavík ef íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því. Haukur Ingvarsson fjallar um starfsemi stríðsupplýsingaskrifstofu Bandaríkjanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld og beinir sjónum sínum sérstaklega að Vestur-Íslendingnum Hjörvarði Harvard Arnason. Agnes Jónasdóttir skrifar um ástandsmálin svokölluðu í ljósi barnaverndar en margar þeirra kvenna sem yfirvöld höfðu afskipti af vegna samskipta þeirra við erlenda hermenn í stríðinu voru í raun stúlkur undir lögaldri.

Kápumynd heftisins af Gunnari á Hlíðarenda og Njáli á Bergþórshvoli er sótt í handritið Lbs. 747 fol., sem tveir vinnumenn á Fellsströnd skrifuðu og teiknuðu um 1870, en Þorsteinn Árnason Surmeli skrifar grein um handritið og skrifarana. Óðinn Melsted, Guðmundur Hálfdanarson og Íris Ellenberger skrifa pistla um álitamál Sögu, áhrif stafrænna gagnagrunna á rannsóknir og starfsumhverfi sagnfræðinga. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar um einkaskjalasafn Elínar Briem, sem varðveitt er á Kvennasögusafni, og Sverrir Jakobsson minnist Gunnars Karlssonar sagnfræðings sem lést síðastliðið haust. Auk þess er að finna í heftinu tíu ritdóma um nýleg sagnfræðiverk og ársskýrslu stjórnar Sögufélags.

SAGA verður aðgengileg hér í vefverslun, í forlagsverslun Sögufélags í Gunnarshúsi og í helstu bókaverslunum.

Samningur undirritaður um útgáfu á skjölum yfirréttarins

Þann 7. maí síðastliðinn var undirritaður samningur milli Alþingis, Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags um útgáfuverkefni til tíu ára. Gefnir verða út dómar og skjöl yfirrréttarins á Íslandi og aukalögþinga. Yfirrétturinn starfaði á Þingvöllum árin 1563-1800 og eru elstu varðveittu dómskjölin fráárinu 1690. Fyrsta bindi ritraðarinnar kom út árið 2011 og tók til áranna 1690-1710, næsta bindi mun koma út árið 2021 og inniheldur skjöl frá árunum 1711-1730. Skjölin verða bæði gefin út á bók og á vef Þjóðskjalasafns.

Útgáfan er styrkt af Alþingi í tilefni aldarafmæli Hæstaréttar Íslands 2020 og var forseta þingsins falið að ganga til samstarfs við Sögufélag og Þjóðskjalasafn um útgáfuna.

Samninginn undirrituðu Auður Elva Jónsdóttir fjármála- og rekstrarstjóri fyrir hönd Alþingis, Anna Elínborg Gunnarsdóttir sviðsstjóri fyrir hönd Þjóðskjalasafns og Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Sögufélags. Viðstödd voru einnig Þorsteinn Magnússon aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur og annar ritstjóra útgáfunnar.

Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 12. mars síðastliðinn, rétt áður en samkomubann skall á. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Fundinum stýrði Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og fundarritari var Markús Þ. Þórhallsson. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, flutti ársskýrslu og Brynhildur Ingvarsdóttir, gjaldkeri, lagði fram og kynnti ársreikning Sögufélags. Á fundinum var nýrri vefsíðu Sögufélags jafnframt hleypt af stokkunum og hlaut hún góðar undirtektir fundarmanna. Úr stjórn gekk Brynhildur Ingvarsdóttir en hún tók fyrst sæti í stjórn sem varamaður árið 2016 og hefur verið gjaldkeri síðan 2017. Brynhildur tók við starfi framkvæmdastjóra Sögufélags 1. nóvember síðastliðinn. Í stað hennar var kjörin Lóa Steinunn Kristjánsdóttir sagnfræðingur og sögukennari í Menntaskólanum við Sund. Lóa Steinunn hefur verið ötul í félagsstarfi og var meðal annars forseti EuroClio, European Association of History Educators 2016-2108. Þá á Lóa einnig sæti í fulltrúaráði Europeana (europeana.eu) sem eru rafræn söfn á netinu. Lóa Steinunn var boðin velkomin til starfa fyrir Sögufélag.

Engar lagabreytingar bárust fundinum.

Að fundi loknum flutti Már Jónsson erindið „Raunverudraumar séra Sæmundar Hólm.“ Góður rómur var gerður að erindinu og áttu sér stað líflegar umræður, sem fundarstjóri þurfti að lokum að stöðva svo fundargestir kæmust heim fyrir háttatíma.

Bergsteinn Jónsson

Bergsteinn Jónsson (1926-2006) var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann tók sæti í varastjórn Sögufélags árið 1960 og 1965-1978 var hann í aðalstjórn félagsins. Áður en hann tók sæti í stjórn var hann byrjaður að vinna að útgáfu Sögufélags á skjölum Landsnefndarinnar fyrri frá 1770-1771 og kom fyrsta bindið út 1958 og það næsta 1961. 

Bergsteinn ritaði fjölda greina í Sögu og var meðhöfundur Björns Þorsteinssonar að Íslandssögu til okkar daga

Bækur eftir höfund

Hjalti Snær Ægisson

Hjalti Snær Ægisson (f. 1981) er doktor í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands (2019). Hann ritstýrði, ásamt Aðalgeir Kristjánssyni, bréfaskiptum Gríms Thomsens og Brynjólfs Péturssonar sem komu út í smáritaröð Sögufélags árið 2011.   

Bækur eftir höfund