Skip to content

Öræfahjörð Unnar Birnu hlýtur tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Á fullveldisdaginn sjálfan 1. desember var tilkynnt hvaða höfundar og verk hlytu tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2019. Öræfahjörð Unnar Birnu Karlsdóttur var þar á meðal!

Athöfnin sem var hátíðleg og nokkuð fjölmenn fór fram að Kjarvalsstöðum. Nú er tilnefnt í þremur flokkum; í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, í flokki barna- og ungmennabóka og í flokki fagurbókmennta.

Það er Félag íslenskra bókaútgefenda sem veitir Íslensku bókmenntaverðlaunin árlega í lok janúar. Bækur Sögufélags hafa iðulega verið tilnefndar í flokki fræðirita undanfarin ár. Skemmst er að minnast bóka Steinunnar Kristjánsdóttur um Leitina að klaustrunum og Vilhelms Vilhelmssonar Sjálfstætt fólk sem báðar voru tilnefndar árið 2017.

Að þessu sinni hlaut bókin glæsilega, Öræfahjörðin eftir Unni Birnu Karlsdóttur, tilnefningu ásamt fjórum öðrum ritum.  Í dómnefnd sátu Knútur Hafsteinsson, formaður, Árni Sigurðsson og Kolbrún Elfa Sigurðardóttir.

Í þessari viðamiklu bók er rakin saga hreindýra á Íslandi frá upphafi til okkar daga. Meðal svo ótalmargs annars eru sagðar sögur af harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og misjöfnum tilraunum til hreindýrabúskapar. Hún er nú fáanleg á öndvegisverði á vefsíðu Sögufélags.

Sárasótt og skrælingjar – fjör á höfundakvöldi Sögufélags

nóvember 2019

Glatt var á hjalla og notaleg stemming í Gunnarshúsi á fjölmennu höfundakvöldi Sögufélags miðvikudagskvöldið 20. nóvember. Kynnir kvöldsins, Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins, reið á vaðið þegar hún sagði frá starfi félagsins á árinu, meðal annars í kynningar- og ímyndarmálum og greindi frá því að nýlega hefðu orðið til 102 (misalvarlegar) tillögur að nýju slagorði Sögufélags, sem uppskáru gleðihlátur og afar jákvæð viðbrögð: Sögufélag – vettvangur gærdagsins.

Annar ritstjóra tímaritsins Sögu, Kristín Svava Tómasdóttir kynnti haustheftið sem nú er komið út, glóðvolgt úr prentsmiðjunni. Hún sló á létta strengi líkt og Brynhildur og færði gestum m.a. hugmyndir að bráðsmellnum slagorðum fyrir Borgarsögusafn. Það var þó utan dagskrár, tímaritið Saga með glæsilegri kápumynd af málverki Ásgríms Jónsonar af Eyjafjallajökli var til umræðu.

Saga er sem endranær stútfull af áhugaverðu efni af ýmsu tagi en að þessu sinni kynnti Þorsteinn Vilhjálmsson greinina „Kaupstaðarsótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“. Sárasótt, skuggalega vertshúsið White Star og Hádegisblaðið komu m.a. við sögu í máli hans.

Að því loknu fjallaði Vilhelmína Jónsdóttir um grein sína „„Ný gömul hús“. Um aðdráttarafl og fortíðleika í nýjum miðbæ á Selfossi.“ Grein Vilhelmínu vekur án efa athygli enda margir áhugasamir um húsagerðarlist og nærumhverfi sitt og fyrirhuguð uppbygging nýja miðbæjarins á Selfossi hefur verið um margt umdeild.

Margrét Gunnarsdóttir steig að því búnu í pontu með níðþungt fjórða bindi Landsnefndarinnar fyrri undir handleggnum. Rauðir miðar stungust víða út úr bókinni og greinilegt að Margrét hafði kynnt sér efnið vel. Spjall hennar við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur var enda mjög upplýsandi og skemmtilegt fyrir gesti.

Í þessu fjórða bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá háembættismönnum landsins, þ. á m. Skúla Magnússyni. Í spjallinu kom fram að mögulega hefði komið til greina að skipta þriðja og fjórða bindi í þrennt en torvelt getur reynst að átta sig á umfangi bóka af þessu tagi fyrirfram og því er fjórða bindið jafn mikið að vöxtum og raun ber vitni.

Að loknu kaffihléi settist Örn Hrafnkelsson niður með Guðmundi Jónssyni en þeir spjölluðu um Nýtt Helgakver: Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar. Þeir ræddu meðal annars um kúnstina að halda afmælisriti leyndu fyrir afmælisbarninu sjálfu og vandkvæði þess að samræma ritreglur ólíkra fræðimanna í vönduðu riti sem þessu. Efni bókarinnar er enda margvíslegt en í henni eru 20 greinar um sögu og bókmenntir miðalda, samfélag og náttúru, skáld og lærdómsmenn og menntun og stjórnmál.

Örn og Guðmundur rómuðu Helga Skúla mjög, sem einstakan fræðimenn og fyrir ósérhlífni sína, elju og greiðvikni við samferðafólk sitt. Enda kvað að minnsta kosti einn höfunda hafa staðið frammi fyrir því að hafa ekki getað leitað til hans um yfirlestur líkt og venja hans mun hafa verið.

Rúsínan í pylsuendanum voru samræður Sumarliða Ísleifssonar og Unnar Birnu Karlsdóttur um glæsilega bók þeirrar síðarnefndu Öræfahjörðina: Sögu hreindýra á Íslandi. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar um hreindýrin sjálf og um viðhorf landsmanna til þeirra.

Líkt og hjá öðrum þeim sem á undan töluðu var gleðin og léttleikinn í fyrirrúmi – en fræðilegar áherslur jafnframt skammt undan.  Þau ræddu vítt og breitt um þetta glæsilega rit, sögu hreindýranna og stórkarlalegar veiðisögur og sögur um veiðiþjófnað bar jafnvel á góma – þótt ekki væri farið mjög djúpt í það viðkvæma efni.

Fyrstu hreindýrunum var ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum á seinni hluta 18. aldar, en í máli Unnar Birnu kom fram að skipulagið í kringum þau hafi ekki endilega verið með besta móti til að byrja með. Sömuleiðis hafi einhverjir talið það fyrir neðan virðingu menntaðs ræktunarsamfélags að taka við dýrum sem hirðingjar að jafnaði annast.  Sumarliði hafði á orði að það gleddi hann að skrælingjar væru nefndir í Öræfahjörðinni og Unnur Birna hvatti gesti til að lesa bókina.

Nýjustu bækur Sögufélags voru einmitt til sölu á frábæru tilboði þetta kvöld og gengu margir gestir út í nóvemberkvöldið, saddir og sælir með gleðibros á vörum og áritaða bók undir handleggnum.

 

Höfundakvöld hjá RSÍ 20. nóvember

Nóvember 2019

Þrjár nýjar fræðibækur og tvö bindi af tímaritinu Sögu komu út hjá Sögufélagi á árinu og verður útgáfan kynnt með léttu spjalli á höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, miðvikudaginn 20. nóvember kl. 19:30-21:30.

Vaskur hópur viðmælenda mun ræða við höfunda og ritstjóra bókanna og spyrja þá spjörunum úr. Léttar veitingar og bækur seldar á tilboðsverði.

Kvöldið hefst með kynningu Kristínar Svövu Tómasdóttur á hausthefti Sögu auk þess sem tveir af greinarhöfundum munu segja frá sínu framlagi í tímaritinu. Þorsteinn Vilhjálmsson kynnir greinina „Kaupstaðarsótt og freyjufár. Orðræða um kynheilbrigði og kynsjúkdóma í Reykjavík 1886–1940“ og Vilhelmína Jónsdóttir segir frá sinni grein „„Ný gömul hús“. Um aðdráttarafl og

fortíðleika í nýjum miðbæ á Selfossi.“

Að því loknu mun Margrét Gunnarsdóttir kynna fjórða bindi Landsnefndarinnar fyrri og spjalla við ritstjórana tvo, Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Landsnefndin fyrri ferðaðist um Ísland árin 1770-1771 og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Skjöl hennar gefa því einstæða innsýn í íslenskt samfélag á þeim tíma. Árið 2016 réðist Þjóðskjalasafn Íslands í útgáfu skjalanna í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og er mikill fengur að þessari heimildaútgáfu. Í fjórða bindi verksins eru birt bréf til Landsnefndarinnar frá háembættismönnum landsins.

Eftir stutt hlé mun Örn Hrafnkelsson kynna Nýtt Helgakver: Rit til heiðurs Helga Skúla Kjartanssyni sjötugum 1. febrúar og ræða við einn af höfundum. Ritið hefur að geyma 20 greinar um sögu og bókmenntir miðalda, samfélag og náttúru, skáld og lærdómsmenn og menntun og stjórnmál. Höfundar eru flestir fylgdarmenn Helga Skúla í fræðasamfélaginu, auk þess sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ritar ávarp til afmælisbarnsins.

Síðast en ekki síst mun Sumarliði Ísleifsson kynna Öræfahjörðina: Sögu hreindýra á Íslandi og taka höfundinn, Unni Birnu Karlsdóttur, tali. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands frá Finnmörku í Noregi árið 1771 og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Í Öræfahjörðinni er sögð saga hreindýra á Íslandi frá seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag. Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra.

Bækur ársins eru fjölbreyttar að efni og má búast við skemmtilegum umræðum og notalegri stemningu eins og jafnan á viðburðum Sögufélags. Höfundakvöldið er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Allir velkomnir, fræðimenn jafnt sem aðrir áhugamenn um sögu.

Bókagjöf með inngöngutilboði í Sögufélag

Nú fer að styttast í að hausthefti Sögu komi út og því hefur Sögufélag ákveðið að bjóða upp á sérstakt inngöngutilboð fyrir nýja áskrifendur að Sögu.
Í því felst að þeir sem gerast áskrifendur að Sögu, og þar af leiðandi meðlimir í Sögufélagi, fá fyrsta eintakið af Sögu frítt og býðst að eignast eina af eftifarandi bókum Sögufélags sér að kostnaðarlausu:

  1. Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918
  2. Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands
  3. Stund klámsins. Klám á  Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar
  4. Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi
  5. Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018
  6. Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar
  7. Á hjara veraldar. Saga norræna manna á Grænlandi
  8. Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld
  9. Saga Pelópeyjarstríðsins
  10. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld

Nýttu þér einstakt tækifæri til að slást í hóp áhugamanna um sögu og eignast í leiðinni góða bók fyrir haustlægðirnar.

Sendu okkur línu á sogufelag@sogufelag.is ef þú vilt ganga í Sögufélag og fá glæsilega bókagjöf og hausthefti Sögu þér að kostnaðarlausu. Tilboðið gildir í október.

Nýr framkvæmdastjóri Sögufélags

Tímamót urðu í rekstri Sögufélags nú á dögunum þegar framkvæmdastjóri í fullu starfi var ráðinn til félagsins frá 1. nóvember næstkomandi.

Brynhildur Ingvarsdóttir sagnfræðingur er nýr framkvæmdastjóri félagsins. Hún hefur áður starfað sem sviðstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Marinox ehf. og ASA ehf., og markaðsstjóri hjá ORF líftækni. Brynhildur er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA próf í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston. Hún hefur mikið unnið að verkefna- og sýningarstjórn, ritstjórn og birt greinar um söguleg efni. Þá hefur hún á starfsferli sínum einnig unnið að nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum. Brynhildur hefur setið í stjórn Sögufélags síðan 2016 og síðustu mánuði tekið að sér tímabundin störf fyrir félagið. Stjórn Sögufélags býður hana hjartanlega velkomna til starfa fyrir Sögufélag.

Innbundið safn SÖGU gefið Sögufélgi

Nóvember 2019

Nú á dögunum barst Sögufélagi skemmtileg gjöf: safn tímaritsins Sögu 1949-1996 innbundið í fallegt leðurband.

Safnið kemur úr dánarbúi Aðalsteins Davíðssonar íslenskufræðings (1938-2019). Aðalsteinn var m.a. lektor í íslensku við Háskólann í Helsinki, íslenskukennari í MS, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins og vann við þýðingar.

Aðalsteinn og kona hans, Bergljót Gyða Helgadóttir, lögðu mikla ást við bókband og bókasöfnun. Helst bundu þau inn tímarit og greinasöfn og var Saga þar á meðal.

Þegar Saga kom út fyrst fengu allir áskrifendur lausar arkir sem svo voru bundnar inn á nokkurra ára fresti. Í dag fá langflestir Sögu innbundna, en þó eru enn þá nokkrir sem fá Sögu til sín í lausum örkum og binda sjálfir inn.

Sögufélag þakkar aðstandendum Aðalsteins kærlega fyrir þessa gjöf sem ber ræktarsemi félaga við tímaritið Sögu fagurt vitni.

Vel samin rit fá viðurkenningu

desember 2018

Tveir höfundar bóka sem Sögufélag gaf út í ár, hafa fengið úthlutað úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar. Það eru þau Axel Kristinsson höfundur bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? og Kristín Svava Tómasdóttir sem skrifaði Stund klámsins. Bækurnar hafa báðir vakið eftirtekt og umtal, þær eru vel skrifaðar, læsilegar og falla því vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Steinunn Kristjánsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson fengu einnig veglega styrki fyrir bækur sínar sem Sögufélag gaf út 2017; Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir og Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Allmargir sagnfræðingar aðrir hlutu styrk úr sjóðnum.

Sjóðurinn Gjöf Jóns Sigurðssonar var stofnaður samkvæmt erfðaskrá Ingibjargar Einarsdóttur, ekkju Jóns forseta árið 1879. Tveimur árum síðar samþykkti Alþingi reglur um sjóðinn sem veitti allmörgum fræði- og vísindamönnum viðurkenningu fyrir vel samin rit. Hann styrkti útgáfu þeirra og merkra heimildarrita.

Á Þjóðhátíðarárinu 1974 ákvað Alþingi að efla sjóðinn með árlegu framlagi og er nú veitt til hans á fjárlögum jafngildi árslauna prófessors við Háskóla Íslands. Upphafleg markmið sjóðsins hafa jafnan verið höfð í huga við úthlutun sem er annað hvert ár.

Að þessu sinni sinni var úthlutað styrkjum samtals að fjárhæð 9,6 milljónum.

Stund klámsins í öðru sæti!

desember 2018

Bók Kristínar Svövu Tómasdóttur Stund klámsins hafnaði í öðru sæti í flokki fræði- og handbóka, í verðlaunavali bóksala 2018.  Stórvirkið Flóra Íslands var hlutskarpast að þessu sinni.

Verðlaun bóksala eru árviss atburður sem var kynntur í bókaþætti Egils Helgasonar Kiljunni miðvikudagskvöldið 12. desember.

Bóksalar um allt land greiða atkvæði um nýútkomnar bækur og eru birtar niðurstöðurnar fyrir þrjú efstu sætin í mismunandi flokkum.

Sögufélag óskar Kristínu Svövu og öllum aðstandendum Stundar klámsins innilega til hamingju með árangurinn.

Margmenni á málþingi

desember 2018

Húsfyllir var á þverfaglegu málþingi Sögufélags og Sagnfræðistofnunar Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar.

Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði reið á vaðið þar sem hún lýsti hvernig menn og eldfjöll gerbreyttu ásýnd Íslands á fyrstu öld byggðar í landinu. Axel Kristinsson sagnfræðingur fjallaði um goðsagnir eða mýtur um s.k. vistmorð sem hann taldi ekki endilega standast frekari skoðun.

Helgi Þorláksson fyrrverandi prófessor í sagnfræði fjallaði um hvernig viðhorf til Dana tók breytingum á seinni hluta tuttugustu aldar og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kenna einum hópi öðrum fremur um fátækt á Íslandi fyrr á tímum. Að lokum leiddi sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson að því sannfærandi líkum að Íslendingar gætu hafa verið um 100 þúsund á 14. öld, með því að „nota aðrar heimildir“ en hingað til.

Óhikað má fullyrða að aðkoma ólíkra fræðigreina eykur á dýpt umræðunnar um liðna tíma. Innlegg Guðrúnar Gísladóttur, Egils Erlendssonar, Sigrúnar Daggar Eddudóttur og Leones Tinganelli treysti skilning viðstaddra á því sem sem sagnfræðingarnir höfðu fram að færa.

Vesæl þjóð í vondu landi? Goðsagnir og raunveruleiki Íslandssögunnar

nóvember 2018

Oft er talað um að íslenska þjóðin hafi fyrr á tímum búið við ömurlega örbirgð um langa hríð. En er þetta ekki bara goðsögn sem varð til í þjóðfrelsisbaráttunni, eitthvað sem fólk þurfti að trúa til að sannfæra sig um að sjálfstæði væri best?

Goðsögnin virðist síðan hafa verið endurunnin í þágu nýrra tíma, nú síðast að því er virðist til notkunar í vaxandi ferðaþjónustu. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að lífskjör Íslendinga voru ekkert verri en annarra þjóða í nágrenninu, á sumum sviðum jafnvel betri ef eitthvað var. Landnámið og búsetan hafði þó í för með sér verulegt álag á gróðurþekju, skóga og jarðveg því landnemar notuðu sömu landbúnaðartækni og í heimalöndunum en gróðurinn er hér viðkvæmari en þar.

Myndin er samt mun flóknari en oftast er látið í veðri vaka og mikilvægt að hafa í huga að mismunandi álag var á landið eftir tímabilum, landshlutum og búsháttum.

Nokkrir þeirra fræðimanna sem rannsakað hafa þessa sögu munu 8. desember næstkomandi flytja erindi á málþingi um þessi mál í sal Þjóðminjasafnsins. Það eru Sögufélag og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands sem standa að málþinginu.

Tveir þeirra sem erindi halda eru með bækur á jólamarkaði, þeir Axel Kristinson með Hnignun, hvaða hnignun?, og Árni Daníel Júlíusson með Af hverju strái. Í þeim báðum eru, með ólíkri nálgun, færð rök að því að hin hefðbundna hugmynd um vesæla þjóð í vondu landi standist á engan hátt.

Frummælendur og umræðuefni eru:

14.00 Guðrún Gísladóttir, Egill Erlendsson, Sigrún Dögg Eddudóttir og Leone Tinganelli: Gróður og jarðvegur eftir landnám.

14.20 Axel Kristinsson: Vistmorðingjar: Rapa Nui og Ísland.

14.50 Helgi Þorláksson: Danir sýknir. Hvað svo?

15.10 Árni Daníel Júlíusson: Bjuggu 100.000 manns á Íslandi á 14. öld?

Eins og áður sagði verðu málþingið haldið þann 8. desember 2018 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 14.00. Fundarstjóri er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!