Konur sem kjósa: Aldarsaga – útgáfuviðburður

Útgáfu bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga er fagnað á sjálfum kvennafrídeginum. Í ljósi ástandsins í samfélaginu fer útgáfuhófið fram á netinu og er því aðgengilegt öllum. Hér munu flytja ávörp forseti Íslands, forseti Alþingis, forseti Sögufélags, höfundar bókarinnar og ritstjóri. Dagskrána kynnir skrifstofustjóri Alþingis Ragna Árnadóttir.
 
Konur sem kjósa er einkar glæsilegt verk um íslenska kvenkjósendur í eina öld sem unnið var í samstarfi við Alþingi. Fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum.
 
Höfundar eru sagnfræðingarnir Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Verkið er 783 síður af fróðleik um íslenskar konur, ríkulega myndskreytt í stóru og glæsilegu broti. Bókin er hönnuð af Snæfríð Þorsteins og er fáanleg í forsölu í vefverslun Sögufélags – frí heimsending þegar bókin kemur í fyrstu viku nóvember.
 

 

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli opnar í dag

Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) opnar á  Laugardalsvelli í dag.

Sögufélag, líkt og undanfarin ár, er með bás á markaðnum þar sem hægt er að kaupa bækur félagsins á kostakjörum. Meðal þess sem er í boði eru Smárit SögufélagsHinir útvöldu eftir Gunnar Þór Bjarnason, verðlaunabókin Stund klámsins eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og margt fleira. Allt á gjafaverði.

Bókamarkaðurinn er opinn frá kl. 10-21 alla daga og stendur yfir dagana 27. febrúar til 15. mars.

 

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Árið 2012 gaf Sögufélag út bók hennar um Skriðuklaustur í Fljótsdal. Bókin hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bækur í flokki fræðirita og var tilnefnd til Viðurkennningar Hagþenkis og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Bækur eftir höfund

Gunnar Þór Bjarnason

Gunnar Þór Bjarnason fæddist á Ísafirði 1957. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, lauk BA-prófi frá í sagnfræði og þýsku frá Háskóla Íslands, MA-prófi í alþjóðasamskiptum frá sama skóla og stundaði framhaldsnám í sagnfræði í Þýskalandi. Hann kenndi í mörg ár við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hefur lengi verið stundakennari við Háskóla Íslands.

Gunnar Þór hefur sinnt ýmsum félags- og útgáfustörfum innan sagnfræðinnar; var annar stofnenda Sagna, ritstýrði Nýrri sögu  um hríð og sat í stjórn Félags sögukennara, var formaður Félags um átjándu aldar fræði í fjögur ár og sat í stjórn Sögufélags.

Gunnar Þór hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis árið 2015 fyrir bókina Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914-1918.

Bækur eftir höfund

Smári Geirsson

Smári Geirsson

Smári Geirsson (f. 1951) stundaði nám í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands og lauk B.A. prófi 1976. Síðan lá leiðin í Háskólann í Björgvin í Noregi þar sem hann nam stjórnsýslufræði og lauk prófi 1971. Námi í uppeldis- og kennslufræðum við Háskóla Íslands lauk hann 1980.

Smári hefur fengist við kennslu og ritstörf og var skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað 1983-1987. Þá átti hann sæti í bæjarstjórn Neskaupstaðar og síðar Fjarðarbyggðar í 28 ár. Smári hefur samið bækur og fjölda greina um austfirska sögu.

Bækur eftir höfund

Unnur Birna Karlsdóttir

Unnur Birna Karlsdóttir (f. 1964) lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til.

Unnur Birna er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi.

 

Bækur eftir höfund

Björk Ingimundardóttir

Björk Ingimundardóttir

Björk Ingimundardóttir fæddist árið 1943 á Hæli í Flókadal og er sagnfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún starfaði á Þjóðskjalasafni 1971‒2013 og hefur komið að útgáfu fjölda bóka, þar má nefna fyrsta bindi Yfirréttarins á Íslandi, Skjalasafn landfógeta 1695­‒1904 og Byggðir Borgarfjarðar. Árið 2011 var Björk gerð að heiðursfélaga í Sagnfræðingafélagi Íslands.

Bækur eftir höfund

Öræfahjörðin hlýtur aðra tilnefningu!

Skammt er stórra högga á milli hjá Unni Birnu Karlsdóttur og Sögufélagi.  Skömmu eftir að ljóst varð um tilnefningu Öræfahjarðarinnar: Sögu hreindýra á Íslandi til Íslensku bókmenntaverðlaunanna var tilkynnt að hún ætti einnig möguleika á að fá Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlauna kvenna árið 2020.

Þann 3. desember var tilkynnt við skemmtilega athöfn í Borgarbókasafninu í Grófinni hverjar þær níu bækur væru sem tilnefndar eru að þessu sinni til Fjöruverðlaunanna. Öræfahjörðin er þar á meðal.

Fjöruverðlaunin eru veitt árlega fyrir fagurbókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis og barna- og unglingabækur. Með verðlaununum á að auka kynningu á ritverkum kvenna og hvetja konur í rithöfundastétt til dáða. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2007 og á hverju ári þaðan í frá.

Í rökstuðningi sínum um tilnefningu Öræfahjarðarinnar segir dómnefnd, sem skipuð var Dalrúnu J. Eygerðardóttur, Sóleyju Björk Guðmundsdóttur og Þórunni Blöndal, í rökstuðningi sínum að hér sé á ferð „ … ítarleg umhverfissagnfræðileg rannsókn á sögu sambýlis Íslendinga og tignarlegra hreindýra runnum frá Finnmörku; huldudýrum hálendisins. Lífshættir íslenskra hreindýra hafa verið sveipaðir ákveðinni dulúð, enda megin búsvæði þeirra fjarri mannabyggðum.“

Dómnefndin segir einnig að Unnur Birna Karlsdóttir geri „ … lesandanum kleift að upplifa sögu hreindýranna, með lýsandi texta og ljósmyndum, sem í senn dýpka frásögnina og færa okkur nær heimi hreindýranna.“