Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags var haldinn þann 12. mars síðastliðinn, rétt áður en samkomubann skall á. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Fundinum stýrði Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og fundarritari var Markús Þ. Þórhallsson. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, flutti ársskýrslu og Brynhildur Ingvarsdóttir, gjaldkeri, lagði fram og kynnti ársreikning Sögufélags. Á fundinum var nýrri vefsíðu Sögufélags jafnframt hleypt af stokkunum og hlaut hún góðar undirtektir fundarmanna. Úr stjórn gekk Brynhildur Ingvarsdóttir en hún tók fyrst sæti í stjórn sem varamaður árið 2016 og hefur verið gjaldkeri síðan 2017. Brynhildur tók við starfi framkvæmdastjóra Sögufélags 1. nóvember síðastliðinn. Í stað hennar var kjörin Lóa Steinunn Kristjánsdóttir sagnfræðingur og sögukennari í Menntaskólanum við Sund. Lóa Steinunn hefur verið ötul í félagsstarfi og var meðal annars forseti EuroClio, European Association of History Educators 2016-2108. Þá á Lóa einnig sæti í fulltrúaráði Europeana (europeana.eu) sem eru rafræn söfn á netinu. Lóa Steinunn var boðin velkomin til starfa fyrir Sögufélag.

Engar lagabreytingar bárust fundinum.

Að fundi loknum flutti Már Jónsson erindið „Raunverudraumar séra Sæmundar Hólm.“ Góður rómur var gerður að erindinu og áttu sér stað líflegar umræður, sem fundarstjóri þurfti að lokum að stöðva svo fundargestir kæmust heim fyrir háttatíma.