Aðalfundur Sögufélags 2018

júní 2018

Stjórn Sögufélags: Hjalti Hugason, Brynhildur Ingvarsdóttir, Markús Þ. Þórhallsson, Hrefna Róbertsdóttir, Gunnar Þór Bjarnason, Örn Hrafnkelsson og Íris Ellenberger

Aðalfundur Sögufélags 2018 var haldinn í fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands 31. maí síðastliðinn. Bragi Þorgrímur Ólafsson fagstjóri handritadeildar Landsbókasafns stjórnaði fundinum af röggsemi. Örn Hrafnkelsson ritaði fundinn.

Hrefna Róbertsdóttir forseti Sögufélags rakti starfsemi félagsins á liðnu ári. Hún tiltók m.a. viðburði og útgáfur á vegum félagsins. Þær bækur sem komu út árið 2017 vöktu athygli í samfélaginu, hlutu tilnefningar og verðlaun. Það er gleðiefni fyrir félagið. Hrefna kynnti útgáfustefnu næstu ára, sérstaklega þau verk sem væntanleg eru á árinu 2018. Hún áréttaði mikilvægi tímaritsins Sögu og impraði á þeim breytingum sem gætu orðið í stafrænum heimi. Að auki fagnaði forseti þeirri miklu vinnu í kortlagningu starfsins, fjármála og framtíðarsýnar sem hefur þegar skilað sér.

Brynhildur Ingvarsdóttir gjaldkeri Sögufélags fór snöfurmannlega í gegnum fjármálastöðu félagsins; tölurnar sýndu greinilega að hin mikla vinna við endurskipulagninu hefur skilað sér. Staðan er skýr og góð en áhersla verður lögð á að halda henni þannig, t.a.m. með því að endurnýja samning um rekstrarstyrk hins opinbera til Sögufélags.

Sitjandi stjórn var endurkjörin án mótframboða og er svo skipuð:

Hrefna Róbertsdóttir, sviðsstjóri varðveislu- og miðlunarsviðs hjá Þjóðskjalasafni Íslands forseti.

Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu- og endurgerðar hjá Landsbókasafni-Háskólabókasafni, ritari.

Brynhildur Ingvarsdóttir, sagnfræðingur, gjaldkeri.

Markús Þ. Þórhallsson, sagnfræðingur og dagskrárgerðarmaður, varamaður. Vef- og kynningarstjóri.

Ísir Ellenberger, sagnfræðingur, meðstjórnandi.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur, meðstjórnandi.

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands, varamaður.

Framundan er spennandi starfsár, tímaritið Saga verður áfram kjölfestan í starfseminni, fjöldi áhugaverðra bóka er væntanlegur á árinu og fleiri hugmyndir til eflingar félagsins eru í farvatninu.