Fréttir

Aðalfundur Sögufélags 2018

maí 2018

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn fimmtudaginn 31. maí kl. 18-19 í Fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Í framhaldi af aðalfundinum verður haldið Sögukvöld kl. 19.30-22, einnig í Fundarsal Þjóðskjalasafnsins, með kynningum á nýju efni í Sögu – Tímariti Sögufélags.

Viðburðirnir eru óháðir hver öðrum þannig að menn geta mætt á annan þeirra eða báða, eftir því sem hugur stendur til.


Fréttir

Sögukvöld Sögufélags á Þjóðskjalasafni Íslands 31. maí kl. 19.30-22

maí 2018

Ættarnöfn, ástandsstúlkur, barnsfarasótt og hinsegin rými

Út er komið nýtt hefti af Sögu – Tímariti Sögufélags og fimmtudaginn 31. maí kl. 19.30-22 efnir Sögufélag til Sögukvölds á Þjóðskjalasafni Íslands. Sögukvöldið er að þessu sinni tileinkað bæði vorheftinu 2018 og haustheftinu 2017.

Ritstjórar Sögu, þau Erla Hulda Halldórsdóttir og Vilhelm Vilhelmsson, kynna efnið stuttlega og nokkrir greinahöfundar ræða viðfangsefni sín nánar og svara spurningum. Tveir höfundar haustheftisins 2017 ríða á vaðið. Páll Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fjallar um ættarnöfn á Íslandi og deilur um þau á árunum 1850-1925. Því næst ræðir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, um ímynd hinnar svokölluðu ástandsstúlku á stríðsárunum, einkum út frá upplýsingum í skjalasafni Ungmennaeftirlitsins.

Að loknu stuttu hléi stíga svo á stokk tveir höfundar vorheftisins 2018. Erla Dóris Halldórsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, talar um barnsfarasótt og smitleiðir hennar, og Þorsteinn Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fornfræðingur og þýðandi, ræðir um dagbækur Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og hinsegin rými í Lærða skólanum á 19. öld.

Í nýjasta heftinu af Sögu eru auk þess áhugaverðar greinar um skjalasöfn hreppstjóra og stjórnsýsluþróun, gestgjafahlutverk húsmæðra í íslenskum matreiðslubókum og athafnasemi vesturfarakvenna. Þá er fátt eitt nefnt af þeim fjölbreytta og skemmtilega fróðleik sem þarna er boðið upp á.

Saga: Tímarit Sögufélags hóf fyrst göngu sína árið 1949 og hefur síðan 2002 komið út tvisvar á ári, að vori og hausti. Í Sögu birtast ritrýndar fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum sagnfræði og sögulegra fræða og tímaritið hefur löngu áunnið sér sess sem eitt fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga og söguáhugamanna.

Á Sögukvöldinu gefst gott tækifæri til að fá kynningu á Sögu og er fólk hvatt til að fjölmenna. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Sögukvöldið hefst kl. 19.30 í Fundarsal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162.


Fréttir

Leitin að klaustrunum: Sýningaropnun í Þjóðminjasafni Íslands laugardaginn 26. maí kl. 14

maí 2018

Klausturhald á Íslandi hófst með stofnun klausturs í Bæ í Borgarfirði árið 1030. Samtals voru þrettán klaustur stofnuð á fjórtán stöðum á kaþólsku tímaskeiði hérlendis en því síðasta var komið á fót á Skriðuklaustri árið 1493. Klaustrin urðu ásamt biskupsstólunum að umsvifamestu kirkjulegu stofnunum í landinu fram til siðaskipta. Þá var þeim lokað og kaþólsk trú bönnuð með lögum. Klausturhald féll í gleymsku og minjar eftir klaustrin týndust.

Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Í rannsókninni var leitað að hvers kyns vísbendingum um klausturhald í landinu frá 1030–1554. Notaðir voru jarðsjármælar til að kíkja undir svörðinn og könnunarskurðir grafnir þar sem vísbendingar sáust. Leitað var að klausturgripum í söfnum og kirkjum og að klausturplöntum, rústum og örnefnum úti á vettvangi. Heimildir voru lesnar, jafnt fornbréf sem þjóðsögur, auk þess sem farið var yfir kort og ljósmyndir.

Steinunn kynnir einnig rannsókn sína í samnefndri bók: Leitinni ad klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir, sem Sögufélag gaf út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands árið 2017. Þá bók má skoða sem sjálfstætt framhald af fyrri bók Steinunnar: Sögunni af klaustrinu á Skriðu árið 2012. Báðar þessar bækur voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Sagan af klaustrinu á Skriðu hlaut Fjöruverðlaunin 2012 og Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir hlaut Viðurkenningu Hagþenkis 2017 og auk þess Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana 2017.

Sýningin Leitin að klaustrunum verður opnuð 26. maí 2018 kl. 14 í Horninu á 2. hæð Þjóðminjasafnsins.

Sýningin er liður í hátíðarsýningaröð Þjóðminjasafns Íslands vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands og evrópska menningararfsársins 2018. Af þessu tilefni lánar Þjóðminjasafn Dana Þjóðminjasafni Íslands helgiskrín frá 13. öld frá Keldum á Rangárvöllum. Skrínið verður til sýnis á grunnsýningu safnsins, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár.


Fréttir

Leitin að klaustrunum fékk Viðurkenningu Hagþenkis 2017

apríl 2018

Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 28. febrúar við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir Leitina að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir um ritið: „Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.“ Viðurkenningin fólst meðal annars í árituðu skjali og 1.250.000 kr.
Sverrir Guðjónsson flutti tónlist við athöfnina.

Hagþenkir – Félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna. Í ráðinu sátu að þessu sinni: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson og Sólrún Harðardóttir.

Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Steinunn hefur fengist við rannsóknir víða um land undanfarna áratugi, einkum þó á Austurlandi, og birt um þær greinar og haldið fyrirlestra jafnt hér heima sem erlendis. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Steinunn kristnivæðinguna á Íslandi um og eftir aldamótin 1000. Doktorsritgerð sína varði hún við Gautaborgarháskóla árið 2004.

Frá árinu 2002 hefur Steinunn einbeitt sér að rannsóknum á klausturhaldi hérlendis, fyrst með uppgrefti á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal en síðar með kortlagningu klausturhalds í landinu á miðöldum. Sögufélag gaf út bók hennar Söguna af klaustrinu á Skriðu árið 2012 og bókina Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir í samstarfi við Þjóðminjasafnið árið 2017. Báðar bækurnar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis. Sú fyrri hlaut Fjöruverðlaunin í sama flokki árið 2013 og sú síðari Bókmenntaverðlaun Félags bóksala árið 2017, auk Viðurkenningar Hagþenkis.


Fréttir

Bjarnarmessa: 100 ár frá fæðingu Björns Þorsteinssonar sagnfræðings

mars 2018

Þriðjudaginn 20. mars 2018 kl. 16:30-18:30 verður efnt til Bjarnarmessu í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur (Fyrirlestrarsal 023). Bjarnarmessa er minningarþing Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélags Íslands og Sögufélags sem haldið er í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Björns Þorsteinssonar sagnfræðings.

Björn var brautryðjandi í nútímasagnfræði á Íslandi og um langt skeið einn fremsti fræðimaður á sínu sviði. Hann setti Íslandssöguna í alþjóðlegt samhengi og opnaði henni nýjar víddir. Björn var alla ævi kennari og óþreytandi að miðla þekkingu sinni til nemenda og almennings enda taldi hann brýnt að þjóðin þekkti fortíð sína.

Á Bjarnarmessu stíga þjóðþekktir fræðimenn á stokk og heiðra minningu Björns með fjölbreyttum erindum.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Dagskrá:

Fundarstjóri: Kristín Svava Tómasdóttir, formaður Sagnfræðingafélags Íslands

Fyrir hlé:
Þingsetning: Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags

Kveðja frá Vigdísi Finnbogadóttur

Helgi Skúli Kjartansson: Eigi einhamur: Æviatriði Björns Þorsteinssonar

Sveinbjörn Rafnsson: Björn Þorsteinsson, íslenskur sagnfræðingur á 20. öld

Helgi Þorláksson: Félagsmálatröllið Björn Þorsteinsson

Guðmundur J. Guðmundsson: Í slóð Björns Þorsteinssonar

Hlé sa. kl. 17:20 í 20 mín. Léttar veitingar

Eftir hlé:

Björn Pálsson: Fræðari og félagi

Þórunn Valdimarsdóttir: Bjössi besta Buna

Ávarp: Valgerður Björnsdóttir

Ávarp: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Styrkveiting úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar: Valgerður Björnsdóttir afhendir styrkinn

Þingslit: Anna Agnarsdóttir f.h. Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands


Fréttir

Höfundakvöld Sögufélags 23. nóvember kl. 20

nóvember 2017

Höfundakvöld Sögufélags verður haldið í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 23. nóvember kl. 20 með kynningum og léttu spjalli um nýútkomnar bækur Sögufélags:

• Hjalti Hugason ræðir við Steinunni Kristjánsdóttur um bók hennar: Leitina að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir.
• Guðmundur Jónsson ræðir við Vilhelm Vilhelmsson um bók hans Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld.
• Guðrún Elsa Bragadóttir ræðir við Írisi Ellenberger og Ástu Kristínu Benediktsdóttur um greinasafnið Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Íris og Ásta Kristín eru ritstjórar bókarinnar ásamt Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur. Auk ritstjóranna eiga Kristín Svava Tómasdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson og Þorvaldur Kristinsson einnig greinar í bókinni.

Bækurnar verða til sýnis og sölu á staðnum á góðu tilboðsverði og við þetta tilefni má einnig nálgast glænýtt hausthefti Sögu: Tímarits Sögufélags 2017. Jafnframt er um að gera að nýta tækifærið til að skoða eldri útgefnar bækur Sögufélags sem allar eru fáanlegar á skrifstofunni í Gunnarshúsi.

Boðið er upp á kaffi og meðlæti. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Höfundakvöld Sögufélags er hluti af höfundakvöldaröð Rithöfundasambandsins þar sem rithöfundar kynna nýútkomnar bækur fram að jólum.

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn á undan höfundakvöldinu kl. 18.30-19.30. Allir velkomnir á hann líka.


Eldri Fréttir