FRÉTTIR

Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 28. febrúar við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir Leitina að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag gaf bókina út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir um ritið: „Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.“ Viðurkenningin fólst meðal annars í árituðu skjali og 1.250.000 kr.
Sverrir Guðjónsson flutti tónlist við athöfnina.

Hagþenkir – Félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna. Í ráðinu sátu að þessu sinni: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson og Sólrún Harðardóttir.

Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Steinunn hefur fengist við rannsóknir víða um land undanfarna áratugi, einkum þó á Austurlandi, og birt um þær greinar og haldið fyrirlestra jafnt hér heima sem erlendis. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Steinunn kristnivæðinguna á Íslandi um og eftir aldamótin 1000. Doktorsritgerð sína varði hún við Gautaborgarháskóla árið 2004.

Frá árinu 2002 hefur Steinunn einbeitt sér að rannsóknum á klausturhaldi hérlendis, fyrst með uppgrefti á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal en síðar með kortlagningu klausturhalds í landinu á miðöldum. Sögufélag gaf út bók hennar Söguna af klaustrinu á Skriðu árið 2012 og bókina Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir í samstarfi við Þjóðminjasafnið árið 2017. Báðar bækurnar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis. Sú fyrri hlaut Fjöruverðlaunin í sama flokki árið 2013 og sú síðari Bókmenntaverðlaun Félags bóksala árið 2017, auk Viðurkenningar Hagþenkis.

Þriðjudaginn 20. mars 2018 kl. 16:30-18:30 verður efnt til Bjarnarmessu í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur (Fyrirlestrarsal 023). Bjarnarmessa er minningarþing Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélags Íslands og Sögufélags sem haldið er í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Björns Þorsteinssonar sagnfræðings.

Björn var brautryðjandi í nútímasagnfræði á Íslandi og um langt skeið einn fremsti fræðimaður á sínu sviði. Hann setti Íslandssöguna í alþjóðlegt samhengi og opnaði henni nýjar víddir. Björn var alla ævi kennari og óþreytandi að miðla þekkingu sinni til nemenda og almennings enda taldi hann brýnt að þjóðin þekkti fortíð sína.

Á Bjarnarmessu stíga þjóðþekktir fræðimenn á stokk og heiðra minningu Björns með fjölbreyttum erindum.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Dagskrá:

Fundarstjóri: Kristín Svava Tómasdóttir, formaður Sagnfræðingafélags Íslands

Fyrir hlé:
Þingsetning: Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags

Kveðja frá Vigdísi Finnbogadóttur

Helgi Skúli Kjartansson: Eigi einhamur: Æviatriði Björns Þorsteinssonar

Sveinbjörn Rafnsson: Björn Þorsteinsson, íslenskur sagnfræðingur á 20. öld

Helgi Þorláksson: Félagsmálatröllið Björn Þorsteinsson

Guðmundur J. Guðmundsson: Í slóð Björns Þorsteinssonar

Hlé sa. kl. 17:20 í 20 mín. Léttar veitingar

Eftir hlé:

Björn Pálsson: Fræðari og félagi

Þórunn Valdimarsdóttir: Bjössi besta Buna

Ávarp: Valgerður Björnsdóttir

Ávarp: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Styrkveiting úr Sagnfræðisjóði dr. Björns Þorsteinssonar: Valgerður Björnsdóttir afhendir styrkinn

Þingslit: Anna Agnarsdóttir f.h. Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands

Eldri Fréttir